Reyni viljandi að fá Kim til að tryllast?

Kims Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir bandarísk …
Kims Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir bandarísk stjórnvöld egna Kims til að halda áfram að vígbúast. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir bandarísk stjórnvöld hvetja Norður-Kóreu til að setja aukinn kraft í áætlun sína að verða kjarnorkuveldi.

Lavrov hafnaði þeirri tillögu Nikky Haley, fastafulltrúa Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að skorið yrði á öll tengsl við Norður-Kóreu eftir síðustu flugskeytatilraun ríkisins í gær.

Rússar hafa haldið því fram að viðskiptaþvinganir á Norður-Kóreu virki ekki og hafa hvatt til þess að farið verði í viðræður við ríkið í staðinn.

Bandaríkin hafa varað ráðamenn Norður-Kóreu við því að landið „verði jafnað við jörðu“ komi til stríðs.

Norður-Kórea sendi á loft eldflaug í gær, sem er sú stærsta og öflugasta sem her ríkisins hefur gert tilraun með til þessa. Segjast þarlendir ráðamenn nú hafa flaugar sem nái alla leið til Bandaríkjanna. Vopnasérfræðingar hafa þó dregið í efa að flaugarnar séu  nógu nákvæmar.

Lavrov, sem var í heimsókn í Hvíta-Rússlandi, var spurður um það hvort  Bandaríkin væru viljandi að reyna að eyðileggja Norður-Kóreu.

„Maður fær þá tilfinningu að allt sé gert viljandi til að fá Kim Jong-un til að tryllast og grípa til óráðlegra aðgerða,“ sagði Lavrov.

„Bandaríkjamenn þurfa að útskýra fyrir okkur hvað þeir eru að reyna að gera. Ef þeir eru að reyna að finna ástæðu til að eyðileggja Norður-Kóreu, eins og sendifulltrúi Bandaríkjanna sagði í Öryggisráðinu látum þá þá segja það beinum orðum og látum æðstu bandarísku ráðamennina staðfesta það.“ 

Lavrov hvatti því næst til viðræðna við Norður-Kóreu. „Við höfum þegar ítrekað bent á að tíma viðskiptaþvingana er í raun lokið og að þær ályktanir sem kynntu þvinganirnar hefðu átt að innihalda kröfu á endurnýjun viðræðna,“ sagði hann.

Bandaríkin hunsi slíkar ábendingar hins vegar með öllu sem hann telji vera alvarleg mistök.

Kína og Rússland eru meðal fárra ríkja sem Norður-Kórea á enn í sambandi við og bæði ríki hafa neitunarvald í öryggisráðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert