Bað kærastans í miðri þingræðu

Þingmaðurinn Tim Wilson bað kærasta sinn að giftast sér í …
Þingmaðurinn Tim Wilson bað kærasta sinn að giftast sér í ræðu sem hann hélt á ástralska þinginu. AFP

Þingstörf á ástralska þinginu voru með óhefðbundnum hætti í dag þegar Tim Wilson, þingmaður Frjálslynda flokksins, bað kærasta síns í ræðu sinni um frumvarp sem leyfir hjónaband samkynhneigðra.

Tillagan var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 15. nóvember með 62% atkvæða og nú standa yfir umræður um frumvarpið í þinginu. Tek­ist hef­ur verið á um mál­efnið í meira en ára­tug í Ástr­al­íu en búist er við því að frumvarpið verði samþykkt.

Frétt mbl.is: Já fyrir ástina

„Ef ég gæti farið aftur í tímann og sagt hinum hrædda 18 ára krakka að hann myndi halda ræðu hér, með kærasta sinn, Ryan, á áhorfendapöllunum, þá myndi hann ekki trúa mér,“ sagði Wilson meðal annars í ræðu sinni.

Hann beindi svo sjónum sínum að kærastanum og hélt áfram: „Svo það er bara eitt eftir ógert. Ryan Patrick Bolger, viltu giftast mér?“

Ryan brosti breitt og sagði já.

Ryan Bolger (fyrir miðju), fyrrverandi kærasti en nú unnusti þingmannsins …
Ryan Bolger (fyrir miðju), fyrrverandi kærasti en nú unnusti þingmannsins Tims Wilson, var á áhorfendapöllum ástralska þingsins þegar Wilson bað hans. AFP

Forseti þingsins og aðrir þingmenn í salnum óskuðu nýtrúlofaða parinu til hamingju.

BBC greindi frá bónorðinu en myndband af því má einnig sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert