Ásakanir ganga á víxl milli Írana og Sáda

Uppreisnarmaður skoða skemmdir í nágrenni forsetahallarinnar í Sanaa sem bandalagsríkin …
Uppreisnarmaður skoða skemmdir í nágrenni forsetahallarinnar í Sanaa sem bandalagsríkin undir forystu Sádi-Araba gerðu árás á.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu vilja að Jemen losni við „skæruliða studda af Írönum“. Þetta kom fram í fyrstu yfirlýsingu þeirra eftir að uppreisnarmenn Húta í landinu réðu fyrrverandi forseta landsins af dögum í gær.

Ali Abdullah Saleh lét af völdum sem forseti árið 2011 í kjölfar arabíska vorsins. Við völdum tók Abedrab­bo Man­sour Hadi. Uppreisnarmenn úr hópi Húta, þjóðarbrots úr norðurhéruðum landsins, vildu Hadi frá og hertóku höfuðborgina Sanaa árið 2014. Um það leyti gengu þeir í bandalag með fyrrverandi forsetanum og hans stuðningsmönnum sem þeir höfðu áður verið svarnir óvinir. Upp úr þessu bandalagi slitnaði endanlega um helgina og uppreisnarmennirnir litu á Saleh sem svikara, er hann vildi koma á vopnahléi og semja við Sádi-Araba sem leiða hernaðarbandalag til stuðnings núverandi forseta. Saleh var því skotinn og drepinn.

„Ríkisstjórn Sádi-Arabíu ber þá von í brjósti að uppreisn almennings í Jemen gegn hryðjuverkum skæruliða Húta sem Íranar styðja, muni leiða til frelsun Jemen frá misnotkun, lífshættu og ólögmætrar eignaupptöku,“ sagði í yfirlýsingu frá Sádi-Aröbum.

Ekki var minnst á Saleh eða dauða hans í yfirlýsingunni.

Saleh sat á forsetastóli í 33 ár og þótti harðstjóri og spilltur. Hann naut á sínum tíma stuðnings Sádi-Araba eða allt þar til hann gekk í raðir uppreisnarmannanna árið 2014. Sviptingar hafa því verið stöðugar í valdataflinu í landinu. Fyrir utan uppreisnarmenn, stuðningsmenn Saleh, stuðningsmenn Hadi og hernaðarbandalagið hafa vígamenn Al-Qaeda og Ríkis íslams látið til sín taka í borgarastyrjöldinni.

Því hefur lengi verið haldið fram að Hútar njóti hernaðarlegs stuðnings Írana í stríðsrekstri sínum sem hófst af fullu afli er Sádi-Arabar hófu loftárásir í Jemen árið 2015. Stjórnvöld í Íran hafa ætíð neitað þessu. Í yfirlýsingu í dag sögðust þau þó enn neita afskiptum en tóku fram að Jemen myndi berjast gegn árásaraðilum og eru þar talin hafa átt við Sádi-Araba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert