Ástandið á eftir að versna

Borgin Sanaa hefur síðustu daga verið vígvöllur blóðugra átaka uppreisnarmanna ...
Borgin Sanaa hefur síðustu daga verið vígvöllur blóðugra átaka uppreisnarmanna og stuðningsmanna fyrrverandi forseta landsins. Þá hafa verið gerðar ítrekaðar loftárásir og hundruð manna fallið.

Á einni viku hafa að minnsta kosti 234 fallið í átökum í höfuðborg Jemen. Yfir 400 hafa særst að sögn starfsmanna Rauða krossins. Sprengjum hefur rignt úr lofti og skotum verið hleypt af skriðdrekum á götum borgarinnar sem breyst hafa í blóðugan vígvöll. Við þetta ástand hafa íbúar landsins þurft að búa árum saman. Og þúsundir þeirra hafa fallið í átökum eða hreinlega soltið í hel.

Upplausn varð í hópi uppreisnarmanna fyrir helgi og stuðningsmanna Ali Abdullah Saleh fyrrverandi forseta með þeim afleiðingum að harðir bardagar brutust ítrekað út auk þess sem loftárásir voru gerðar á borgina. Saleh var drepinn af uppreisnarmönnum í gær er hann lagði á flótta eftir að hafa lýst því yfir að hann styddi nú hernaðarbandalag Sádi-Araba í borgarastríðinu.

 

Ahmed Abul Gheit, formaður Arababandalagsins, hefur fordæmt morðið og segir það undirstrika „glæpsamlega náttúru“ uppreisnarmannanna sem eru úr röðum Húta, þjóðarbrots shía-múslima úr norðurhluta landsins. Arababandalagið varar við því að morðið sé eins og „sprengja inn í viðkvæmt ástand hins stríðshrjáða lands“ en Saleh átti þúsundir stuðningsmanna. 

Saleh var skotinn og myndir og myndskeið voru birt af líki hans þar sem sjá mátti mikla áverka á höfði hans. Gheit segir drápið sýna hið sanna óeðli uppreisnarmannanna og segir þá bera höfuðábyrgð á því hvernig ástandið í landinu hefur þróast.

Síðustu daga hafa uppreisnarmennirnir snúið vopnum sínum að stuðningsmönnum Saleh sem áður voru þeirra bandamenn í átökunum. Þeir ætla sér að halda völdunum í höfuðborginni Sanaa sem þeir rændu af Abedrab­bo Man­sour Hadi, núverandi forseta, árið 2014. 

Saleh hafði verið við völd í 33 ár er honum var komið frá í kjölfar arabíska vorsins árið 2011. Hann gekk síðar til bandalags við uppreisnarmennina, sem hann áður hafði deilt við. 

Uppreisnarmenn Húta fara um götur Sanaa, höfuðborgar Jemen, á skriðdrekum. ...
Uppreisnarmenn Húta fara um götur Sanaa, höfuðborgar Jemen, á skriðdrekum. Borgin hefur verið á þeirra valdi frá því í september árið 2014. AFP

Í kjölfar átakanna í síðustu viku gerði Saleh tilraun til sátta við Sádi-Araba sem leiða hernaðarbandalag ásamt stjórnarhernum gegn uppreisnarmönnunum. Þá sauð endanlega upp úr og uppreisnarmennirnir tóku hann af lífi. 

Jafnast á við stríðsglæpi

Götur höfuðborgarinnar Sanaa eru nú blóðugur vígvöllur að sögn Jamie McGoldrick sem starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Jemen. Starfsmenn hjálparstofnana og samtaka hafa þurft að leita skjóls. McGoldrick hefur varað stríðandi fylkingar við því að vísvitandi árásir á almenna borgara og heilbrigðisstofnanir séu augljóst brot á alþjóðalögum og geti jafnast á við stríðsglæpi.

Frá því að Sádar hófu afskipti af borgarastríðinu árið 2015 hafa um 10.000 Jemenar fallið í átökum. Þá hafa jafnmargir soltið í hel og orðið smitsjúkdómum að bráð. Sameinuðu þjóðirnar segja að hungursneyð vofi yfir milljónum vannærðra barna. Tæpar 19 milljónir þurfa neyðaraðstoð og 2,5 milljónir hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Rafmagnsleysi er viðvarandi á stórum svæðum og óðaverðbólga geisar svo nauðsynjavörur hafa rokið upp í verði og eru aðeins á fárra færi. 3,3 milljónir eru á vergangi innan landsins. 

Mjög erfitt hefur reynst að koma lyfjum og öðrum nauðsynjum til landsins síðustu vikur og mánuði þar sem hafnir og flugvellir hafa verið í herkví. Saleh hafði um helgina heitið því að gera sitt til að breyta því og hvatti til vopnahlés en í kjölfarið fór allt í bál og brand. 

Ali Abdullah Saleh var forseti Jemen í 33 ár. Honum ...
Ali Abdullah Saleh var forseti Jemen í 33 ár. Honum var komið frá völdum í kjölfar arabíska vorsins árið 2011 en naut áfram stuðnings þúsunda landa sinna. AFP

„Við höfum upplifað hryllilega daga. Skotið hefur verið úr skriðdrekum Húta og sprengjum rignt úr lofti,“ segir Mohammed al-Madhaji, íbúi í Sanaa, í samtali við Reuters-fréttastofuna. „Bardagarnir hafa verið svo ofbeldisfullir að við erum stöðugt hrædd um að deyja. Við komumst ekki út af heimilum okkar.“

Heitir hefndum

Nú hefur sonur Saleh heitið hefndum vegna dauða föður síns og hvatt aðra til hins sama. „Ég mun leiða orrustuna allt þar til síðasti maður úr röðum Húta verður hrakinn frá Jemen,“ hefur sjónvarpsstöð í Sádi-Arabíu eftir Ahmed Ali Saleh. Hann hvatti svo stuðningsmenn föður síns til að „ná Jemen á sitt vald“ úr höndum Húta.

Nú þegar klofningur hefur orðið milli uppreisnarmanna Húta og stuðningsmanna Saleh hafa valdalínur stríðsins færst til og alls óvíst er hvað það boðar. Saleh naut, þrátt fyrir að hafa stýrt landinu með járnhnefa í rúmlega þrjá áratugi, stuðnings þúsunda landa sinna. Í bandalagi við Húta hafði hann náð völdum á stórum svæðum landsins frá forsetanum núverandi sem enn er í útlegð í Sádi-Arabíu.

Uppreisnarmenn Húta eru sagðir njóta stuðnings Írana. Forsetinn nýtur hins ...
Uppreisnarmenn Húta eru sagðir njóta stuðnings Írana. Forsetinn nýtur hins vegar stuðnings Sádi-Araba. AFP

Sonurinn Ahmed Ali Saleh er í stofufangelsi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann var þar áður sendiherra Jemen en er faðir hans gekk til samstarfs við uppreisnarmennina og Sameinuðu arabísku furstadæmin til hernaðarbandalags með Sádi-Aröbum var hann settur í stofufangelsi. Yfirlýsing hans nú er sú fyrsta í langan tíma og í fréttaskýringu Reuters um málið segir að hún gæti verið til marks um það að hernaðarbandalagið ætli að beita honum fyrir sig í komandi átökum við Húta.

Ástandið mun áfram versna

„Við eigum nú von á því að ástandið haldi áfram að versna,“ segir Aswan Abdu Khalid, kennari við háskólann í Aden í Jemen í samtali við Reuters. „Þetta er aðeins upphafið af áframhaldandi átökum og frekari blóðsúthellingum. Stríðinu mun ekki ljúka í bráð.“

Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð í Hodeidah í Jemen.
Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð í Hodeidah í Jemen. AFP

Í dag hafa borist fregnir af því að uppreisnarmennirnir séu svo sannarlega ekki við það að játa sig sigraða. Þeir eru síðustu daga sagðir hafa handtekið marga af stuðningsmönnum Saleh en þeir koma margir úr röðum fyrrverandi hermanna stjórnarhersins.

Hins vegar segja íbúarnir að skothríðin hafi hljóðnað að mestu í dag eftir að í það minnsta sjö loftárásir voru gerðar í nótt. Hvort það er lognið á undan storminum á eftir að koma í ljós. Uppreisnarmenn hafa boðað til fjöldasamkomu í borginni síðdegis í dag til að fagna árangri sínum í því að „afhjúpa samsæri“ Saleh og félaga. 

mbl.is
Síðumúli - Gott skrifstofuherbergi
Gott skrifstofuherbergi til leigu í Síðumúla. Stærð um 20 m2. Sameiginlegur elhú...
Olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson
Olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson, málað í Húsafelli. Stærð ca. 70x63 cm. Uppl í ...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
 
Aflamark
Tilkynningar
??????? ??????????????? ? ??? ?? ????...
L edda 6018022019 i
Félagsstarf
? EDDA 6018022019 I Mynd af auglýsin...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristniboðs- salnum. R...