Fjöldamorð í boði stjórnvalda

AFP

Mannúðarsamtökin Amnesty International hvetja til þess að brugðist verði hart við meðferð stjórnvalda í Búrma á rohingjum. Sérstök umræða verður um Búrma í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Herinn í Búrma neitar ásökunum Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjanna um þjóðernishreinsarnir á rohingjum í Rakhine-héraði í Norður-Búrma. Þrátt fyrir að 620 þúsund manns hafi þurft að flýja yfir landamærin til Bangladess eftir að þorp þeirra voru brennd til grunna undir stjórn hersins í Búrma. Fólkið býr nú við afar bág kjör í yfirfullum flóttamannabúðum í Bangladess.

Leikföng barna í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess.
Leikföng barna í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. AFP

Mannréttindaráð SÞ mun fjalla um málefni Búrma á fundi í Genf síðar í dag. Amnesty hvetur aðildarríki ráðsins að láta ekki undan og beita Búrma þrýstingi í málinu. Um sé að ræða glæpi gegn mannkyninu. Glæpir sem eiga sér stað á hverjum degi. Mannréttindaráðið verði að grípa inn, bregðast við með harðorðri samþykkt sem sendi skýr skilaboð til ríkisstjórnar Búrma og hersins um að viðurstyggileg meðferð þeirra á rohingjum verði að ljúka strax og að illvirkjunum verði ekki hlíft, segir James Gomez, svæðisstjóri Amnesty í Suðaustur-Asíu.

Mannréttindasamtök hafa greint frá því að fólk sé enn að flýja Búrma og það hafi sömu sögu að segja og flóttamennirnir sem áður voru farnir yfir landamærin, nauðganir, morð og íkveikjur.

Herinn hefur réttlætt herferðina gegn rohingjum á grundvelli þess að um viðbrögð sé að ræða við árásum vígasveitar rohingja á landamæralögreglu 25. ágúst.

Mannréttindaráð SÞ stendur afar sjaldan fyrir sérstökum fundum af þessu tagi en til þess að slíkur fundur sé haldinn þarf þriðjungur þeirra 47 ríkja sem eiga fulltrúa í ráðinu að óska eftir því, eða alls 16 ríki.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert