„Tertumálið“ tekið fyrir í dag

Hæstiréttur Bandaríkjanna hlýðir í dag á röksemdafærslu í máli þar sem bakari neitaði að baka brúðkaupstertu fyrir samkynhneigt par. Bakarinn sagði að að hann neitaði að baka tertuna á grundvelli trúar sinnar.

Dómstóll í Colorado hafði áður dæmt David Mullins og Charlie Craig í hag. Jack Phillips er eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins Masterpiece Ca­kes­hop en hann segir málið stríða gegn rétti hans til trúfrelsis en samkvæmt honum geta aðeins maður og kona gengið í hjónaband.

Mullins og Craig komu í bakaríið hjá Phillips í júlí árið 2012. Ætlun þeirra var að panta köku vegna brúðkaups þeirra síðar sama ár. Hjóna­bönd sam­kynja para voru á þeim tíma ekki lög­leg í Col­orado en parið hugðist ganga í það heil­aga í öðru ríki.

Dave Mullins og Charlie Craig í viðtali en tertumál þeirra …
Dave Mullins og Charlie Craig í viðtali en tertumál þeirra verður tekið fyrir í Hæstarétti Bandaríkjanna í dag. AFP

Phillips neitaði að verða við því og sagði að fyrirtæki hans afgreiddi ekki brúðartertur handa samkynja pörum. Hann bauð þeim í staðinn afmælistertu.

Dóm­stóll­inn í Col­orado komst að þeirri niður­stöðu að lög gegn mis­mun­un gerðu ekki ráð fyr­ir að fólk gæti mis­munað öðrum á grund­velli trú­ar sinn­ar og bannaði Phillips að mis­muna viðskipta­vin­um sín­um á grund­velli kyn­hneigðar.

Phillips áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Hann segir málið snúast um listrænt frelsi sitt; hann hafi ekki neitað parinu um tertu vegna kynhneigðar heldur vegna skilaboðanna sem tertan myndi senda:

„Samkynhneigðir menn eru alltaf velkomnir í verslunina, þetta snýst ekki um það. Ég get bara ekki búið til kökur til að fagna einhverju sem gengur gegn trúnni,“ sagði Phillips.

Lögmaður Mullins og Craig segir að Philips sé að sækjast eftir því að hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að mismuna fólki og því sé mikið í húfi.

Frétt BBC.

Bakarinn Jack Phillips.
Bakarinn Jack Phillips. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert