Ákvörðunin mun „kveikja elda“

Fólk horfir yfir gamla borgarhlutann í Jerúsalem.
Fólk horfir yfir gamla borgarhlutann í Jerúsalem. AFP

Viðurkenni Donald Trump Bandaríkjaforseti Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis í dag, eins og fullyrt að hann muni gera, mun það „kveikja elda“ í Miðausturlöndum og valda hamförum og átökum um ófyrirséða framtíð.

Þetta er mat tyrkneskra stjórnvalda. Stjórnvöld fjölmargra landa hafa tekið í svipaðan streng og hvatt Trump til að láta kyrrt liggja. Í þessum hópi er einnig Frans páfi sem hvetur til óbreytts ástands hvað þetta varðar. Sýrlandsstjórn segir ákvörðunina hættulega og Sádi-Arabar segja hana „svívirðilega ögrun gegn múslimum“.

Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segist ekki eiga von á því að það verði gefin út viðvörun til Íslendinga sem staddir eru í Ísrael. „En það gildir með þetta eins og annað að við hvetjum ferðalanga alltaf til þess að hafa varann á, fylgjast vel með fréttum, forðast mótmæli og fara að tilmælum yfirvalda,“ segir hún og bendir á að það hafi ekki eingöngu verið boðað til mótmæla í Ísrael heldur við bandarísk sendiráð víða um heim. „Svo fólk sem er á ferð ætti að hafa þetta í huga.“ 

WOW air hóf beint flug til Tel Aviv í vetur. 

Ætlar að flytja sendiráðið

Trump er einnig sagður ætla að tilkynna að sendiráð Bandaríkjanna verði flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem, en þó ekki fyrr en eftir nokkur ár. Bandaríkjamenn sem staddir eru í Ísrael hafa verið hvattir til að hafa gætur á sér. Palestínumenn hafa hvatt til þriggja daga mótmæla í kjölfar ákvörðunarinnar.

Bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn líta á Jerúsalem sem höfuðborg sína. Bandaríkin yrðu fyrsta landið til að viðurkenna hana sem höfuðborg Ísraels frá því að ríkið var stofnað árið 1948.

Svæðið tilheyrði áður Jórdaníu en Ísraelsmenn innlimuðu það í stríðinu árið 1967. Frá því ári hafa verið reistar landnemabyggðir um 200 þúsund gyðinga á svæðinu sem taldar eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. 

Mun spilla friðarviðræðum

Talið er af mörgum að ákvörðun Trumps muni spilla fyrir friðarviðræðum fyrir botni Miðjarðarhafs en samkvæmt samkomulagi um framgang viðræðnanna, sem gerður var árið 1993, átti að ræða stöðu Jerúsalem á síðari stigum þeirra.

Embættismenn Bandaríkjastjórnar segja að með ákvörðun sinni sé Trump og hans stjórn að „viðurkenna raunveruleikann“.

Trump hét því í kosningabaráttu sinni að flytja sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem. Hann virðist nú ætla að standa við stóru orðin. Hann hefur einnig sagt að hann vilji koma að friðarsamkomulagi milli Ísraela og Palestínumanna og hefur skipað tengdason sinn, Jared Kushner, sem leiðtoga þeirra viðræðna. Ráðamenn í Bandaríkjunum segja að ákvörðunin um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels sé ekki til þess gerð að taka hlið Ísraela í þeim viðræðum.

Koss dauðans

Viðbrögðin við fréttum af fyrirhugaðri ákvörðun Trumps hafa verið mjög sterk. „Koss dauðans“ sagði ræðismaður Palestínu í Bretlandi um málið. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands segir fréttir af ákvörðuninni valda sér áhyggjum. Abdullah Jórdaníukonungur segir að hún muni grafa undan friðarviðræðum á svæðinu og forseti Egyptalands hefur varað við því að hún muni flækja enn frekar ástandið á svæðinu. Kínversk stjórnvöld segja hana til þess fallna að magna upp ólguna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Greinin er m.a. byggð á fréttaskýringum AFP, BBC og CNN.

Palestínskir mótmælendur brenna mynd af Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Palestínskir mótmælendur brenna mynd af Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert