Segir Jerúsalem höfuðborg Ísraels

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi í dag Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Um sögulega ákvörðun er að ræða en hún felur í sér grundvallarbreytingu á þeirri utanríkisstefnu sem Bandaríkin hafa fylgt undanfarna áratugi allt frá stofnun Ísraelsríkis.

„Ég hef ákveðið að kominn sé tími til þess að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels,“ sagði Trump í ræðu í Hvíta húsinu í dag. „Þetta er það rétta í stöðunni.“ Óttast er að ákvörðunin leiði til aukins ofbeldis í Mið-Austurlöndum en bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall til borgarinnar.

Trump setti einnig í gang vinnu við að flytja bandaríska sendiráðið í Ísrael frá borginni Tel Aviv til Jerúsalem. Tilgangurinn er að standa við kosningaloforð sem hann gaf í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári, segir í frétt AFP. Bæði til kjósenda og fjárhagslegra bakhjarla.

Fram kemur í fréttinni að forverar Trumps á forsetastóli, eins og Bill Clinton og George Bush, hafi einnig gefið hliðstæð kosningaloforð á sínum tíma en fallið frá þeim eftir að þeir náðu kjöri. Trump kom inn á þetta í ræðu sinni þegar hann rifjaði upp að fyrri forsetar hefðu talað um að gera þessa breytingu en ekki látið verða af því.

„Hvort sem það snerist um hugrekki eða að þeir skiptu um skoðun veit ég ekki. Ég held að þetta sé löngu tímabært.“ Trump sagðist eftir sem áður styðja friðsamlega sambúð Ísraela og Palestínumanna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, flytur ræðu sína í Hvíta húsinu …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, flytur ræðu sína í Hvíta húsinu í dag. AFP
Donald Trump staðfestir ákvörðun sína.
Donald Trump staðfestir ákvörðun sína. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert