Weinstein beitti bæði hótunum og skjalli

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein beitti bæði skjalli og hótunum til að …
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein beitti bæði skjalli og hótunum til að þagga niður í þeim sem komust að leyndarmálum hans. AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein réði yfir heilum her aðstoðarmanna er kom að kynferðisbrotum hans. Þetta var m.a. fólk sem sá um að þagga niður í þeim sem vildu gera brot hans opinber, njósnurum sem færðu honum upplýsingar sem hann gat notað til að kúga aðra til þagnar og aðstoðarfólki sem beið utan við hótelherbergin á meðan hann áreitti þar leikkonur undir því yfirskyni að ræða möguleg kvikmyndaverkefni við þær.

Fjallað er ítarlega um mál Weinsteins í New York Times í dag og ýmsir þeirra sem aðstoðuðu hann við brotin með einum eða öðrum hætti eru þar nefndir á nafn. New York Times segir Weinstein hafa stigið í vænginn við þá sem hann gat efnast á eða sem gátu aukið orðspor hans og aðra sem uppgötvuðu leyndarmál hans fékk hann til að þegja með hótunum.

Vikurnar áður en New York Times birti upphaflega umfjöllun sína um kynferðisbrot Weinstein beitti kvikmyndaframleiðandinn ýmsum ráðum til að reyna að draga úr áhrifum hennar. Þetta gerði hann m.a. með aðstoð vinar síns Dylan Howard, ritstjóra tímaritsins National Enquirer sem sendi blaðamenn út af örkunni til að reyna að grafa upp óhróður um þá sem báru fram ásakanir gegn honum. En vegna vináttu sinnar við David J. Pecker, útgefanda American Media Inc. sem m.a. gefur út National Enquirer hefur Weinstein lengi verið þekktur í Hollywood sem F.O.P (e. Friend of Pecker) eða vinur Pecker og þar með verið ósnertanlegur.

Reyndi að hindra birtingu ævisögu McGovan

Weinstein reyndi einnig að koma á fundi með einum þeirra sem komu að skrifunum um hann í gegnum umboðsskrifstofuna C.A.A. sem árum saman hafði sent leikkonur til fundar við Weinstein á hótelherbergjum þrátt fyrir ásakanir um að hann hefði áreitt leikkonur skrifstofunnar á slíkum fundum.

Samsett mynd af hluta þeirra leikkvenna sem hafa stigið fram …
Samsett mynd af hluta þeirra leikkvenna sem hafa stigið fram og greint frá þeirri áreitni sem þær sættu af Harvey Weinstein. AFP

Þá reyndi hann einnig að ýmist að hóta eða skjalla þá sem skrifuðu greinina um aðeins nokkrum klukkustundum áður hún var birt. „Ég er maður sem hef víða aðgang,“ varaði hann blaðamennina við.

Weinstein reyndi líka að greiða fyrrverandi umboðsmanni leikkonunnar Rose McGowan 50.000 dollara og lofaði útgefanda hennar frekari viðskiptum yrði hætt við útgáfu ævisögu McGowan.

Blaðamenn New York Times tóku tæplega 200 viðtöl í tengslum við grein sína um Weinsten og skoðuðu fjölda tölvupósta og skjala hjá fyrirtækjum hans í tengslum greinaskrifin. Segir blaðið suma hafa aðstoðað Weinstein án þess að gera sér grein fyrir því hvað hann var að gera, aðra hafi grunað að eitthvað væri ekki í lagi en aðeins fáeinir hafi verð meðvitaðir um umfang kynferðisbrota hans.

Hræddir við Weinstein eða áhyggjufullir um eigin frama

Hérumbil allir höfðu hins vegar einhverja ástæðu fyrir að þegja eða líta í hina áttina.

Þannig gerðu þeir framkvæmdastjórar hjá kvikmyndafyrirtækjum Weinsteins sem fréttu af brotum hans sjaldnast nokkuð í málunum. Til þess voru þeir of hræddir við kviklyndan yfirmann sinn eða áhyggjufullir um eigin starfsframa. Bróðir hans og meðeigandi Bob Weinstein er þá sagður hafa séð um greiðslur til kvenna vegna kynferðisbrota Weinstein allt frá því á tíunda áratug síðustu aldar.

Jafn vel lágt settir starfsmenn hjá fyrirtækinu voru látnir taka þátt m.a. með því að setja saman „biblíur“ sem innihéldu til að mynda uppástungur að því að koma á fundum með konum og enn aðrir þurftu að aðstoða Weinstein við sprautugjafir vegna risvanda hans.

„Bara Harvey að vera Harvey“

Lögfræðingar Weinsteins sáu síðan um að gerð samkomulaga sem komu í veg fyrir að sannleikurinn kæmist fram í dagsljósið. „Þegar það er samið fljótt þá er engin ástæða til að ræða allar staðreyndir málsins,“ segir Daniel M. Petrocelli, sem sá um samninga fyrir hönd tveggja fórnarlamba Weinsteins.

Rose McGowan var ein af fyrstu konunum sem sökuðu Weinstein …
Rose McGowan var ein af fyrstu konunum sem sökuðu Weinstein um nauðgun. AFP

Þeir umboðsmenn í Hollywood sem vildu auk tengsl sín við Weinstein og koma leikurum sínum að í myndum hans sendu leikkonur einar til fundar við hann á hótelherbergjum og ráðlögðu þeim svo að þegja ef hlutirnir fóru úrskeiðis. „Þetta er bara Harvey að vera Harvey,“ segir New York Times fjölda umboðsmanna hafa sagt við skjólstæðinga sína.

Hjá C.A.A. umboðsskrifstofunni fengu ekki færri en átta umboðsmenn fréttir af því að Weinstein hefði áreitt skjólstæðinga þeirra. Jafnvel Nick Wechsler, umboðsmaður annarrar skrifstofu, sem gagnrýndi Weinstein fyrir að áreita McGowan segist engu að síður hafa fundist hann verða að halda viðskiptatengslum við hann eftir á.

Freistaði með stjörnuaðgengi og hótaði með óhróðri

Weinstein tókst svo að forðast rannsókn fjölmiðla með blöndu hótana og freistinga. Þannig freistaði hann sumra fjölmiðlamanna með aðgangi að stjörnum, leikstjórum og stjörnum prýddum veislum, en öðrum bauð hann safaríkari sögur um aðra í skiptum, hótaði þeim með því að hann hefði óhróður um þá eða að hann gæti hindrað frekari starfsframa þeirra. „Ég þekki forseta Bandaríkjanna, hvern þekkir þú?“ sagði Weinstein iðulega er Barack Obama var forseti, en hann studdi framboð Obama og Clinton hjónanna. „Ég er Harvey Weinstein,“ bætti hann svo við. „Þú veist hvað ég get gert.“

Þannig skrifuðu sumir fjölmiðlamenn undir samning við Weinstein um bókaskrif eða kvikmyndahandrit á sama tíma og þeir áttu að vera að skrifa greinar um hann. Aukin heldur greiddi Weinstein einum slúðurdálkahöfundi New York Daily News, A. J. Benza, fyrir að færa sér fréttir af fræga fólkinu sem hann gæti notað í samningsskyni færi svo að einhver fréttamaður rækist á ástarsamband sem hann væri að reyna að halda leyndu.

Ómögulegt að hafa stjórn á Weinstein-bræðrunum

New York Times segir Disney þá hafa gefið Weinstein bræðrunum mjög lausan tauminn á þeim 12 árum sem þeir stjórnuðu Miramax kvikmyndaverinu, en auk óskarsverðlaunanna sem Disney gat skreytt sig með eftir veru þeirra þar þá fylgdi einnig slóð samninga og ásakana um kynferðislega áreitni. Disney sem heldur því hins vegar fram að fyrirtækinu hafi ekki verið kunnugt um misnotkunina, á nú yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa viljandi horft framhjá þeim. „Það var ómögulegt að hafa stjórn á þeim,“ segir Bill Mechanic, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Bræðurnir Bob og Harvey Weinstein.
Bræðurnir Bob og Harvey Weinstein. Ljósmynd/Wikipedia.org

Weinstein beitti eigin viðskiptafélaga einnig þrýstingi svo þeir segðu ekkert. Þannig sagði hann við Lance Maerov, sem á sæti í stjórn Weinstein Company að hann myndi grafa upp óhróður um fortíð hans og sömuleiðis reyndi hann að neyða Irwin Reiter, sem starfaði sem framkvæmdastjóri hjá honum í þrjá áratugi, til að ræða lofsamlega um sig við fjölmiðla. Þegar Reiter neitaði sagðist Weinstein hafa upplýsingar sem gætu skaðað hann.

27.000 dollara þjórfé og einkaþota til að sækja módel

Það var árið 2014 sem Reiter tók að átta sig á að eitthvað þyrfti að gera varðandi framkomu Weinsteins í garð kvenna. Reiter hafði séð um fjármálinn fyrir Weinstein í þrjá áratugi og vissi að nokkur vafasöm atvik höfðu komi upp í gegnum árin. Hann horfði hins vegar framhjá þeim og taldi líkt og fleiri að samband Weinsteins við leikkonurnar væru vissulega brot á hjúskaparheiti hans, en þó með samþykki beggja.

Er hann fylgdist með ásökunum í garð Bill Cosby fara fjölgandi fylltist hann hins vegar áhyggjum, sem ekki minnkuðu er hann komst að því að Weinstein hefði áreitt nýjan starfsmann Emily Nestor með því að bjóðast til að greiða leið hennar innan fyrirtækisins gegn kynlífi.  Í kjölfarið fór einn aðstoðarmannanna Sandeep Rehal, að trúa Reiter fyrir sumum af kröfum Weinsteins. Hún þurfti að leigja íbúðir fyrir hann með fyrirtækjakorti hans og tryggja að þar væru kvenmanns nærföt, blóm, tveir baðsloppar og auka fatnaður fyrir Weinstein.

Weinstein hafði lengi notað fyrirtækja kort sitt og látið aðstoðarmenn sína um að skilgreina hvað tilheyrði vinnu og hvað einkalífi. Hann hafði því oft í gegnum tíðina greitt fyrirtækinu til baka vegna útgjalda sem ranglega höfðu verið eignuð fyrirtækinu. Nú vildi hann þó einnig að fyrirtækið borgaði 27.0000 dollara þjórfé fyrir starfsfólk snekkju og kostnað vegna einkaþotu til Evrópu til að sækja þangað fyrirsætu.

Tímaritið Time gerði Þá sem rufu þögnina að manni ársins, …
Tímaritið Time gerði Þá sem rufu þögnina að manni ársins, en umfjöllunin um Harvey Weinstein hrundi #MeToo bylgjunni af stað. AFP

Hversu margar eru nógu margar?

Reiter og nokkrir aðrir framkvæmdastjórar voru þarna farnir að setja spurningamerki við það hvers vegna Weinstein setti konur á launaskrá kvikmyndafyrirtækisins án þess að ákveðin verkefni tengdust ráðningunum.

„Hversu margar ????????????? Hversu margar eru nógu margar ???? Hversu margar eru of margar???” skrifaði Reiter í febrúar 2015 í tölvupósti til Tom Prince, yfirmanni hjá framleiðsludeildinni.

„Við fljúgum inn „leikkonum“ víðsvegar að úr heiminum fyrir einnar og tveggja línu orðræðu,“ svaraði Prince.

Reiter og fleiri höfðu áhyggjur af að hegðun Weinstein ætti eftir að fella fyrirtækið, en bræðurnir voru of sterkir hluthafar til að nokkuð fengist gert.

Samstjórnendur Weinsteins hafa hins vegar allt frá 1990 hjálpað til við að fela hegðun Weinteins, en það ár sakaði 23 ára aðstoðarmaður hann um að hafa misþyrmt sér kynferðislega er hún var send heim til hans. Bob Weinstein gerði þá samkomulag við konuna, hið fyrsta af a.m.k. þremur sem hann gerði fyrir bróður sinn. John Schmidt, sem þá var fjármálastjóri Miramax, sagði Harvey Weinstein hafa játað að hafa gert „eitthvað hræðilegt“ eftir uppákomuna með aðstoðarmanninn. „Ég veit ekki hvað kom yfir mig. Þetta gerist ekki aftur,“ segir Schmidt Weinstein hafa sagt. Weinstein hins vegar neitar að þær samræður hafi átt sér stað.

Ásakanirnar héldu hins vegar áfram að berast og hafa gert frá þeim tíma þó að Weinstein hafi ekki verið gerður ábyrgur gjörða sinna fyrr en nú.

Breska leikkonan Kadian Noble hefur ákært Harvey Weinstein fyrir að …
Breska leikkonan Kadian Noble hefur ákært Harvey Weinstein fyrir að hafa nauðgað sér á hótelherbergi í Frakkklandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert