60 ára fangelsi vegna barnakláms

Larry Nassar.
Larry Nassar. AFP

Fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, Larry Nassar, var dæmdur í 60 ára fangelsi í dag fyrir að hafa í fórum sínum barnaklám. Rúmlega 37 þúsund myndbönd af barnaklámi fundust á hörðum diskum í eigu hans.

Fram kemur í frétt AFP að Nassar hafi fengið 20 ára fangelsisdóm fyrir hvern hinna þriggja ákæruliða sem hann stóð frammi fyrir og játaði í júlí í sumar. Dómur verður kveðinn upp yfir Nassar í næstu viku í öðru máli sem snýr að kynferðislegu ofbeldi.

Dómarinn, Janet Neff, sagði að Nassar hefði sýnt fram á að hann ætti aldrei að koma nálægt börnum á nýjan leik. Nassar var dæmdur í borginni Grand Rapids í Michigan-ríki.

Nassar sagði í dómsalnum að hann skammaðist sín fyrir gerðir sínar og að hann hefði glatað öllu. „Maður horfir til baka og veltir fyrir sér hvernig ég tók upp á þessu til að byrja með. Ég ætla að nota hvern dag af dómi þínum til þess að reyna að verða betri maður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert