Er eigandinn lítt þekktur prins?

Salvator Mundi eftir Leonardo da Vinci.
Salvator Mundi eftir Leonardo da Vinci. AFP

Málverkið „Salvator Mundi“ eftir Leonardo da Vinci verður sett upp á nýja Louvre safninu í Abu Dhabi. Verkið, sem er það dýrasta sem hefur verið selt á uppboði, er í eigu lítt þekkts prins í Sádi-Arabíu, samkvæmt heimildum New York Times.

Í frétt New York Times í gær kemur fram að prins Bader bin Abdullah bin Mohammed bin Farhan al-Saud hafi keypt málverkið á 450,3 millj­ón­ir banda­ríkja­dala, sem svar­ar til 46,8 millj­arða ís­lenskra króna, í síðasta mánuði.

Louvre Abu Dhabi, sem er fyrsta safnið utan Frakklands sem ber Louvre nafnið, var opnað nýverið og var ekkert til sparað við hönnun þess.

Frá opnun Louvre Abu Dhabi í nóvember.
Frá opnun Louvre Abu Dhabi í nóvember. AFP

„Verk Da Vinci, Salvator Mundi, er að koma á #LouvreAbuDhabi,"segir í færslu á Twitter-síðu safnsins á arabísku, ensku og frönsku í gær. Með fylgir mynd af verkinu sem er 500 ára gamalt en ekki greint frá því hver eigandi þess er.

Uppboðsfyrirtækið Christie's hefur harðlega neitað að gefa upp hver kaupandinn hafi verið en NYT hefur séð skjöl sem staðfesti hver það er.

„Hamingjuóskir,“ segir í Twitter-færslu Christie's sem svar við færslu Louvre Abu Dhabi.

Ekki fer neinum sögum af Bader prinsi sem listunnanda né kaupanda en hann er vinur og félagi krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, segir í frétt NYT. Mohammed prins er síðan sagður mikill aðdáandi krónaprins Abu Dhabi, Mohammed bin Zayed Al-Nahyan.

Franska vikuritið le Journal du Dimanche greindi frá því á sunnudag að tvö fjárfestingarfyrirtæki væru á bak við kaupin sem fjárfestir fyrir hönd nokkurra listasafna. Í frétt þeirra kom fram að verkið yrði lánað eða endurselt til listasafna einkum í Mið-Austurlöndum og Asíu. 

Bader prins er skráður sem framkvæmdastjóri orkufyrirtækis með höfuðstöðvar í Houston Energy Holdings International, Inc. Á vef þess er honum lýst sem einum yngsta frumkvöðli Sádi-Arabíu og hann fjárfesti í fasteignum, fjarskiptum og endurvinnslu. 

Þegar verkið var selt í síðasta mánuði kepptust fimm um að bjóða í verkið; fjórir voru í símasambandi við starfsmenn uppboðshússins en einn í salnum – kapphlaupið varði í 19 mínútur en þá stóð sigurvegarinn uppi með verkið.

Louvre Abu Dhabi safnið.
Louvre Abu Dhabi safnið. AFP

Uppboðssalurinn var þéttskipaður og spennan mikil, enda óvíst að nokkurt listaverk hafi verið jafn vel kynnt áður en það var boðið upp. Þrátt fyrir að málverkið sé talið afar viðkvæmt eftir hreinsanir og viðgerðir, þá flugu starfsmenn Christie's meðal annars með það til Asíu og sýndu það áhugasömum söfnurum. Þá var það sýnt almenningi í dramatískri lýsingu í New York í viku fyrir uppboðið og var alla dagana löng röð áhugasamra við uppboðshúsið, fólks sem vildi sjá síðasta verk da Vincis sem hefur verið í einkaeigu – áður en það hyrfi aftur af sjónarsviðinu.

Saga málverksins Salvator Mundi er áhugaverð og þá eru ekki allir listfræðingar sammála um það hvort da Vinci sé í raun höfundurinn, eða hvort hann hafi aðeins málað hluta verksins en aðstoðarmenn hans það að mestu.

Málverkið er frá um 1500 og málað á við. Vitað er að da Vinci málaði Kristsmynd og að hún hafi einhverntíman eftir dauða hans verið í eigu bresku konungsfjölskyldunnar, en síðan hvarf hún. Árið 2005 birtist þetta málverk á uppboði á dánarbúi og var selt fyrir aðeins 10.000 dali, um eina milljón kr., en var þá talið verk einhvers lærisveins da Vinci. Eftir það gekk málverkið gegnum viðamikla hreinsun og lagfæringu en í tímans rás hefur það látið mikið á sjá og hressilega verið málað ofan í það; ásjóna Krists var öll önnur og æði klúðursleg eins og hún birtist á verkinu 2005. En árið 2011 birtist verkið síðan í sinni umdeildu dýrð á sýningu í National Gallery í Lundúnum og þá eignað da Vinci af mikilsmetnum sérfræðingum.

Ári síðar buðu þrír listsalar það saman til sölu fyrir 200 milljónir dala en áhuginn var lítill. Uppboðshúsið Sotheby's seldi það að lokum fyrir 80 milljónir dala svissneskum listhöndlara og viðskiptajöfri, Yves Bouvier, sem seldi verkið aftur skömmu síðar, rússneska milljarðamæringnum Dmitry E. Rybolovlev fyrir 127,5 milljónir dala. Sá er mikilvirkur listaverkasafnari og á einnig knattspyrnuliðið Monaco. Rybolovlev hefur síðan höfðað mál gegn Bouvier fyrir að hafa svikið sig um tugi milljarða króna í viðskiptum með þetta verk da Vinci og fleiri listaverk. Það var fjölskylda Rybolovlevs sem seldi Salvator Mundi nú.

Louvre Abu Dhabi safnið var hannað af franska arkitektinum Jean ...
Louvre Abu Dhabi safnið var hannað af franska arkitektinum Jean Nouvel. AFP
mbl.is
Kvæði Bjarna Thorarensen 1847
Til sölu afar fágæt ljóðabók eftir Bjarna Thorarensen amtmann, Kvæði, prentuð í ...
Suzuki GS 1000L Mótorhjól
Árgerð 1981. Keyrt 13.000 mílur, fornhjól sem þarf að skoða annað hvert ár. Hjó...
Nudd Nudd Nudd
Relaxing massage down town Reykjavik. S. 6959434, Alina...
Sómi 800
Til sölu Sómi 800 Aggi SI-8 7185 Nýuppgerður af Siglufjarðarseig. Ný Volvo P...
 
Íbúar í breiðholti
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna í Skóga- o...
Deildastjóri
Grunn-/framhaldsskóla
Sunnulækjarskóli Dei...
Breyting á aðalskipulagi
Tilboð - útboð
Breyting á Aðalskipulagi Skorradalshrepp...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...