Erkifjendur bítast um áhrif og völd

Kona gengur fram hjá risavöxnu veggspjaldi af Ayatollah Ali Khamenei, ...
Kona gengur fram hjá risavöxnu veggspjaldi af Ayatollah Ali Khamenei, leiðtoga Írana, og Ayatollah Ruhollah Khomeini, stofnanda íslamska lýðveldisins Írans. AFP

Stjórnvöld í Íran og Sádi-Arabíu berjast um völd og ítök í Mið-Austurlöndum. Það eru ekki nýjar fréttir en síðustu vikur og mánuði hefur spennan á svæðinu magnast enn frekar, m.a. í Jemen og Líbanon. Önnur stórveldi leika einnig stórt hlutverk í valdataflinu, m.a. Bandaríkin, en forseti þeirra viðurkenndi í gær Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis með ófyrirséðum afleiðingum.

Íranar og Sádi-Arabar eiga hvorir fyrir sig sterka bandamenn sem og óvini á svæðinu sem og víða um heim þó að þær línur séu stundum nokkuð óskýrar og sveiflist til og frá. Þannig hölluðu Bandaríkin sér lengi fast upp að Sádi-Arabíu en nú hefur Donald Trump forseti reitt stjórnvöld í Riyadh til reiði, m.a. með yfirlýsingu sinni um Jerúsalem og með því að krefjast þess að þeir aflétti lokunum sínum á landamærum Jemen, m.a. við hafnir landsins, svo hægt verði að koma þangað neyðarbirgðum. Bandaríkjamenn hafa hingað til stutt hernaðarbandalag leitt af Sádum í þessu fátækasta ríki Arabíuskagans.

Sádi-Arabía

Flestir íbúar Sádi-Arabíu eru súnní-múslimar og í landinu er að finna nokkra af helgustu stöðum íslam. Sádar eru einir stærstu olíuútflytjendur heims og ríkið eitt það auðugasta.

Misklíð ríkjanna tveggja má m.a. rekja til þess að Sádar óttast að Íranar ætli sér að verða valdamestir allra í Mið-Austurlöndum og óttast hert ítök þeirra og áhrif innan annarra ríkja á svæðinu. 

Fjandsemi Sáda í garð Írana virðist hafa aukist enn frekar eftir að Donald Trump settist á forsetastól í Bandaríkjunum en hann hefur ítrekað gagnrýnt Írana og tekið harða afstöðu gegn þeim.

Hinn ungi og sífellt áhrifameiri krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, á í stríði við uppreisnarmenn húta í nágrannaríkinu Jemen. Sádar halda því fram að uppreisnarmennirnir njóti hernaðarlegs stuðnings Írana þó að stjórnvöld í Tehran hafi ætíð neitað því.

Sádar styðja einnig við bakið á uppreisnarmönnum í Sýrlandi og hafa það á stefnuskrá sinni að koma Bashar al-Assad forseta frá völdum. Assad hefur mikil tengsl við stjórnvöld í Íran.

Veggspjald af krónprinsinum Mohammed bin Salman sem fær sífellt meiri ...
Veggspjald af krónprinsinum Mohammed bin Salman sem fær sífellt meiri völd í Sádi-Arabíu. AFP

Íran

Íran varð íslamskt lýðveldi árið 1979 er klerkastjórn tók við völdum undir forystu Ayatollah Khomeini. Íbúarnir eru um 80 milljónir talsins og eru flestir sjía-múslimar. 

Völd Írana hafa aukist töluvert síðustu áratugi sérstaklega eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli í Írak.

Íranar hafa stutt Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í stríði hans gegn uppreisnarhópum og vígamönnum Ríkis íslams og íranskir herflokkar hafa tekið beinan þátt í átökum við vígamenn bæði í Sýrlandi og Írak.

Stjórnvöld í Íran óttast að Sádar séu að reyna að beita áhrifum sínum í Líbanon þar sem Hezbollah-hreyfingin, sem Íranar hafa lengi stutt, á nú fulltrúa í ríkisstjórn. Íranar álíta þó Bandaríkjamenn sína helstu andstæðinga. Íranar segjast hafa yfir fullkomnasta eldflaugakerfi Mið-Austurlanda að ráða og her landsins er fjölmennur, telur yfir hálfa milljón hermanna.

Bandaríkin

Samskipti Írans og Bandaríkjanna hafa lengi verið stirð svo ekki sé fastar að orði kveðið. Andúðin hefur tekið á sig ýmsar myndir. Bandaríska leyniþjónustan stjórnaði m.a. aðgerðum sem leiddu til þess að forsætisráðherra landsins var steypt af stóli árið 1953. Þá voru starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Tehran teknir í gíslingu á níunda áratug síðustu aldar.

Donald Trump hitti Salman bin Abdulaziz al-Saud, konung Sádi-Arabíu, í ...
Donald Trump hitti Salman bin Abdulaziz al-Saud, konung Sádi-Arabíu, í maí á þesu ári. Það var í hans fyrstu opinberu heimsókn í embætti. AFP

Sádi-Arabar hafa hins vegar lengi verið bandamenn Bandaríkjanna þó að samskiptin hafi stirðnað nokkuð á meðan Barack Obama sat á forsetastóli er hann þótti rétta Írönum óverðskuldaða sáttahönd. 

En svo kom Trump inn í myndina. Hann sagði strax í sinni kosningabaráttu að hann ætlaði að taka harðar á málefnum tengdum Íran og að hann ætlaði að fella úr gildi samning við Íran sem Obama gerði og snerist um að Íranar takmörkuðu þróun kjarnavopna og að í staðinn yrði hörðum viðskiptaþvingunum á landið aflétt. Trump og konungsfjölskyldan í Sádi-Arabíu hafa hins vegar styrkt sín samskipti. Sem dæmi er Sádi-Arabía, þar sem kvenkúgun hefur lengi viðgengist og hryðjuverkamenn hreiðrað um sig, ekki á lista bandarískra stjórnvalda yfir erlend ríki sem sæta ferðabanni til Bandaríkjanna.

Til frekara marks um tengsl ríkjanna má nefna að Trump hitti leiðtoga Sádi-Araba og Ísraela í sinni fyrstu opinberu heimsókn í starfi. Öll þessi ríki vilja draga úr ítökum Írana í Mið-Austurlöndum.

Rússland

En Íran, Sádi-Arabía og Bandaríkin eru ekki einu stórveldin sem leika stórt hlutverk í stjórnmálum Mið-Austurlanda. Ekki má gleyma hlut Rússa í þeim efnum.

Rússar eru í þeirri stöðu að vera í ágætum tengslum, m.a. viðskiptalegum, bæði við Sáda og Írana. Rússar hafa til dæmis selt báðum þessum ríkjum vopn.

Hræðilegt ástand ríkir í Jemen þar sem Sádi-Arabar gera ítrekað ...
Hræðilegt ástand ríkir í Jemen þar sem Sádi-Arabar gera ítrekað loftárásir og Íranar eru sagðir styðja uppreisnarhópana. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi taka því ekki afstöðu til deilumála Sádi-Arabíu og Írans en hafa sagst vilja taka að sér hlutverk sáttasemjara. 

Afskipti Rússa af Mið-Austurlöndum eiga sér langa sögu og voru m.a. mikil í kalda stríðinu er Sovétríkin voru og hétu. Stjórnvöld þar útveguðu m.a. sýrlenska hernum vopn á þeim tíma og þjálfuðu hershöfðingja þar í landi. Tengslin við Sýrland minnkuðu er Sovétríkin liðuðust í sundur en síðustu ár hafa Rússar látið æ meira til sín taka á svæðinu á ný, m.a. með yfirlýstum stuðningi sínum við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. 

Katar í skammarkróknum

Milli Mið-Austurlandanna sjálfra eru tengslin svo einnig flókin og margslungin. Sem dæmi tóku nokkur lönd sig saman, með Sádi-Arabíu í broddi fylkingar, og settu viðskiptabann á Katar sem þau sökuðu um að styðja hryðjuverkahópa. Það varð svo til þess að styrkja sambandið milli Katara og Írana. 

Enn eitt dæmið er svo hið óvenjulega ástand sem skapaðist í Líbanon er forsætisráðherrann brá sér til Sádi-Arabíu og tilkynnti um afsögn sína í sjónvarpi þar í landi. Sú uppákoma er sögð varpa ljósi á valdabaráttu Írana og Sáda í hnotskurn. Hariri forsætisráðherra nýtur stuðnings Sádanna en Hezbolla-hreyfingin, sem er með honum í ríkisstjórn, er hins vegar í tengslum við stjórnvöld í Íran. 

Palestínsk börn virða fyrir sér útkrotaða veggmynd af Donald Trump ...
Palestínsk börn virða fyrir sér útkrotaða veggmynd af Donald Trump á vegg við borgina Betlehem. AFP

Hver verða áhrifin af ákvörðun Trumps?

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu líta á Ísraela sem sína bandamenn og Íranar styðja Palestínumenn í sinni baráttu. Sérfræðingar eru ekki á einu máli um hvaða áhrif ákvörðun Trumps um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels muni hafa í Mið-Austurlöndum. „Þetta mun styrkja Írana,“ segir Barbara Slavin hjá Atlantshafsráðinu (Atlantic Council). Hún segir Írana eiga eftir að birtast sem stoð og stytta Palestínumanna á meðan önnur arabaríki eigi eftir að sitja hjá og virðast þá hræsnarar. Elliott Abrams, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, tekur ekki svo djúpt í árinni. Sádar hafi þegar lýst yfir áhyggjum af ákvörðun Trumps. Það hafi þeir að minnsta kosti gert almenningsálitsins vegna. „En þetta mun ekki breyta grunntengslum þeirra við Ísrael. Sádar munu áfram líta á Ísrael sem bandamenn sína gegn Íran.“

Vegna stöðu mála nú, þar sem spennan hefur aukist á ný fyrir botni Miðjarðarhafs, víglínur í borgarastríðinu í Jemen hafa færst til og hið flókna stríð í Sýrlandi geisar enn, er ljóst að sviptingar gætu verið í uppsiglingu. Grundvallarbreytingar á pólitísku landslagi svæðisins gætu jafnvel verið í sjónmáli.

Greinin er byggð á fréttum BBC, AFP, Washington Post, New York Times o.fl.

mbl.is
Herbegi í ágúst og september
Leita eftir herbegi til leigu á höfuðborgarsvæðinu frá 1. ágúst til 7. október n...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Tek að mér byggingastjórn og uppáskrift húsasmíðameistara. Nýbyggingar, viðhald...
 
Úthlutun
Tilkynningar
Auglýsing vegna úthlutunar byggð...
Vélavörður
Sjávarútvegur
Vélavörður Vísir hf. óska...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna Smáíbúða-...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og b...