Mótmæli og tilfallandi átök

AFP

Viðurkenning Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, á Jerúsalem sem höfuðborgar Ísraels í gær hefur leitt til mikilla mótmæla Palestínumanna, tilfallandi átaka og ákalls um stríð gegn Ísrael samhliða vaxandi áhyggjum af því að til blóðsúthellinga komi fyrir botni Miðjarðarhafsins. Fjöldi erlendra ríkja og alþjóðastofnana hafa gagnrýnt ákvörðun Trumps harðlega og varað við mögulegum afleiðingum hennar.

Háttsettir Palestínskir forystumenn hafa sagt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, að hann sé ekki velkominn í Palestínu en þangað hyggst hann halda í heimsókn á næstunni. Bandarísk stjórnvöld hafa sagt að komi til þess að hætt verði við fyrirhugaðan fund Pence með Mahmud Abbas, forseta Palestínu, hefði það afleiðingar. Stjórnvöld í Ísrael hafa hins vegar haldið áfram að lofa Trum fyrir ákvörðun hans.

Her Ísraels gefur sent herlið upp á nokkur hundruð manns til Vesturbakkans sem hersetinn er af Ísrael vegna óvissu um afleiðingar ákvörðunar Trumps. Þá hafa tilfallandi átök átt sér stað á milli Palestínumanna og ísraelskra öryggisveita. Leiðtogi Hamas-samtakanna, Ismail Haniya, hefur kallað eftir vopnaðri uppreisn gegn Ísrael og var nokkrum eldflaugum í kjölfarið skotið frá Gasaströndinni á Ísrael.

Ísraelsher svaraði í sömu mynt gegn tveimur skotmörkum á Gasaströndinni. Mótmæli fóru fram í dag í borgum á Vesturbakkanum, þar á meðal Ramallah, Hebron, Betlehem og Nablus, og á Gasaströndinni. Hamas hefur lýst yfir „degi reiðinnar“ vegna ákvörðunar Trumps. Ísraelskir hermenn beittu táragasi við varðstöð í Ramallah til að dreifa hundruðum manna sem þar voru saman komnir. Rúmlega 20 manns særðust.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert