Erfiðustu viðræðurnar fram undan

Evrópusambandið hefur varað við því í dag að þrátt fyrir sögulegt samkomulag um ákveðin ágreiningsmál við bresk stjórnvöld vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu væru enn erfiðari viðræður fram undan varðandi tengslin þar á milli eftir útgönguna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lýst því yfir að með samkomulaginu hafi nægjanlegur árangur náðst svo hægt sé að hefja viðræður um það með hvaða hætti tengslin á milli Bretlands og sambandsins verður í framtíðinni. Þar á meðal um viðskipti. 

Samkomulagið kveður á um að Bretar greiði á bilinu 40-45 milljarða evra til Evrópusambandsins vegna útistandandi skuldbindinga, tryggi réttindi borgara sambandsins í Bretlandi og að ekki verði sýnileg landamæragæsla á milli Norður-Írlands og Írlands.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir þó erfiðustu viðræðurnar fram undan. Sagði hann í dag að erfitt væri að slíta sambandi eins og allir vissu en enn erfiðara væri að gera það og byggja svo upp nýtt samband í staðinn.

Tusk kallaði enn fremur eftir skýrari upplýsingum frá Bretlandi um það hvers konar viðskiptatengsl bresk stjórnvöld vildu sjá. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, sagði að svigrúmið sem Bretar hefðu gefið væri ekki mikið.

Þannig þýddi áhersla breskra ráðamanna á að segja skilið við innri markað Evrópusambandsins og tollabandalag þess að lítið annað væri í boði en viðskiptasamningur sem byggður væri á fríverslunarsamningi sambandsins við Kanada.

„Það erum ekki við heldur hinir bresku vinir okkar sem eru að setja þessi skilyrði sem loka ákveðnum dyrum,“ sagði hann.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, í Brussel í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert