Myrti systur sína með Samurai-sverði

Samurai-sverð.
Samurai-sverð. Wikipedia

Japanskur maður myrti tvær konur og særði einn áður en hann tók eigið líf við þekkt Shinto-musteri í Tókýó í dag. Maðurinn beitti Samurai-sverði við morðin og fannst blóðugt sverðið á vettvangi.

Samkvæmt frétt BBC bendir allt til þess að morðin tengist langvarandi fjölskyldudeilum. Morðinginn á a hafa myrt systur sína, sem var yfirprestur við skrínið, þegar hún steig út úr bifreið sinni við skrínið. 

Síðan myrti hann aðra konu sem einnig var á staðnum og særði bílstjóra prestsins áður en hann tók eigið líf. 

Fréttir japanskra miðla herma að systkinin hafi lengi átt í illdeilum en morðinginn, Shigenaga Tomioka, var áður æðstiprestur við musterið og hafði tekið við því starfi af föður sínum á tíunda áratugnum. Hann var hins vegar rekinn úr starfi árið 2001 og faðir þeirra sneri aftur til starfa sem æðstiprestur. Faðirinn fékk dóttur sína, Nagako Tomioka, til starfa sem prestur við hlið sér.  

Shigenaga Tomioka var mjög ósáttur við þessa ákvörðun og á að hafa sent systur sinni ítrekuð hótunarbréf næstu árin. Hann var handtekinn árið 2006.

Þegar faðir þeirra fór á eftirlaun árið 2010 varð Nagako Tomioka æðsti prestur við helgidóminn. Þetta varð þess valdandi að söfnuðurinn fór út úr samtökum Shinto-trúarbragðanna þar sem samtökin samþykktu ekki að hún yrði eftirmaður föður síns. 

Shino-trú er japönsk trú. Toshogu-musterið í Nikko í Japan er frá því 1627 og er þekkt fyrir Fukagawa Hachiman hátíðina sem haldin er í ágústmánuði ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert