Náðu völdum í bæ við Rauðahaf

Mikil eyðilegging blasir við í höfuðborginni Sanaa í Jemen.
Mikil eyðilegging blasir við í höfuðborginni Sanaa í Jemen. AFP

Stjórnvöld í Jemen hafa á ný náð yfirráðum yfir bæ við Rauðahafið þar sem uppreisnarmenn úr röðum Húta höfðu rænt völdum. Tugir féllu í átökunum, aðallega úr röðum uppreisnarmanna. Hinn útlægi forseti landsins, Abedrabbo Mansour Hadi, fyrirskipaði áhlaupið og mun stjórnarherinn nú einnig sækja fram í höfuðborg landsins, Sanaa, en þar ráða uppreisnarmennirnir lögum og lofum. 

Talið er að 16 stjórnarhermenn og 41 uppreisnarmaður hafi fallið í orrustunni um bæinn Khokha sem hefur verið undir stjórn Húta frá því í janúar. Einnig gerði hernaðarbandalag leitt af Sádi-Aröbum loftárásir í bænum.

Vika er síðan að uppreisnarmennirnir tóku Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta Jemen, af lífi. Stuðningsmenn hans, sem áður höfðu verið í bandalagi með uppreisnarmönnunum hafa nú flestir lýst yfir stuðningi við stjórnarherinn og hernaðarbandalagið. 

Stærstur hluti Sanaa er enn undir yfirráðum Húta. Hútar eru frá norðurhéruðum landsins og eru sagðir njóta aðstoðar Írana í hernaði sínum. 

Tæplega 9.000 manns hafa fallið í borgarastríðinu í Jemen frá því að Sádi-Arabar hófu afskipti af því árið 2015. Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað varað við ástandinu og sagt hungursneyð af mannavöldum vofa yfir heilli þjóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert