„Svívirðileg mannréttindabrot“

Myndatökulið CNN fylgdist með þrælauppboði í Líbíu í ágúst.
Myndatökulið CNN fylgdist með þrælauppboði í Líbíu í ágúst. Skjáskot/CNN

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna segir að sala á flóttafólki á þrælamarkaði í Líbíu sé glæpur gegn mannkyni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu þar sem verknaðurinn, sem CNN fletti ofan af, er fordæmdur.

Gríðarleg viðbrögð urðu við fréttaflutningi CNN þar sem fjallað var um grimmilega meðferð á flótta- og förufólki í Afríku. Fólkið er flest á leið til Evrópu í leit að bættum lífskjörum. Í fréttum CNN var sýnt frá uppboði á þrælamarkaði í Líbíu.

Öryggisráðið segir slíkt vera svívirðileg mannréttindabrot og auk þess jafnast á við glæpi gegn mannkyni. Yfirlýsing ráðsins var samin af fulltrúum Breta. Í henni kemur auk þess fram að líbísk stjórnvöld verði að vera fús til samstarfs með alþjóðlegum stofnunum og Sameinuðu þjóðunum til að tryggja mannréttindi þeirra sem dvelja í flóttamanna- og fangabúðum í landinu. 

Mikil ólga og upplausn hefur ríkt í Líbíu allt frá því að stjórn Moamer Kadhafi féll árið 2011. Síðan þá hefur uppgangur skæruliðahópa verið mikill og það eru m.a. þeir sem halda flótta- og förufólki í fangabúðum. Stjórnvöld í Líbíu hafa litla sem enga stjórn á þessum hópum. 

Öryggisráðið segir að stöðugleiki í Líbíu sé eina leiðin til að bæta lífskjör þjóðarinnar sem og allra þeirra sem þangað koma á leið sinni til Evrópu.

Sjaldgæft er að Sameinuðu þjóðirnar álykti sérstaklega um eitt land þegar kemur að þrælahaldi og sölu. Stofnunin segir að líbísk stjórnvöld reki um 30 búðir þar sem um 15 þúsund manns dvelji. Hins vegar eru mun fleiri í haldi smyglara og skæruliðahópa. 

Forsætisráðherra Líbíu sagði í kjölfar ályktunar öryggisráðsins að hann myndi gera það sem í hans valdi stæði til að takast á við vandann. Hann segir að gríðarlegur fjöldi flótta- og förufólks sé í landinu á hverjum tíma og ástandið því erfitt viðureignar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert