Fann veskið sitt áratug síðar

Wikipedia

Karlmaður sem týndi veskinu sínu árið 2007 fékk það loks aftur í hendurnar fyrir skömmu ásamt öllu sem í því hafði verið. Þar á meðal 20 franka peningaseðli sem hafði mikið tilfinningalegt gildi fyrir hann samkvæmt fréttavefnum Thelocal.ch.

Maðurinn, Pjeter Marku, starfaði við það að byggja nýtt pósthús í sveitarfélaginu Härkingen í Sviss fyrir áratug þegar hann týndi veskinu. Veskið innihélt skilríki hans, greiðslukort og 500 franka í reiðufé. Einnig 20 franka seðilinn sem hann hafði haft á sér í tvo áratugi sem eins konar heillagrip. Seðillinn var aleiga hans þegar hann kom til Sviss frá Kosovo árið 1989 til þess að hefja nýtt líf. Hann eyddi hins vegar aldrei frönkunum 20.

Seðillinn varð smám saman mikilvægari í hans augum og eftir að hann týndi veskinu leitaði hann og vinnufélagar hans árangurslaust að því á byggingasvæðinu. Hafði hann gefið upp alla von um að sjá 20 frankana aftur. En fyrir nokkrum dögum fékk hann símtal frá pósthúsinu þess efnis að starfsmaður þess hefði fundið veskið.

Þegar Marku hafði sótt veskið sá hann að 500 frankarnir voru enn í veskinu sem og 20 franka seðillinn góði. „Svisslendingar eru sannarlega heiðarlegt fólk,“ er haft eftir honum í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert