Sigruð en engan veginn tortímt

Hermenn í Íraksher fagna sigri yfir hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Hermenn í Íraksher fagna sigri yfir hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. AFP

Þrátt fyrir að stjórnvöld í Írak hafi lýst yfir sigri á hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams stafar enn mikil hætta af liðsmönnum þeirra að mati sérfræðinga. Þeir telja aðvígamenn samtakanna muni í kjölfarið fara annað hvort huldu höfði í eyðimörkum landsins eða fela sig á meðal óbreyttra borgara samkvæmt frétt AFP.

Þremur árum eftir að hryðjuverkasamtökin lýstu yfir stofnun kalífadæmis á stórum landsvæðum í Írak og Sýrlandi sem var þegar mest var á stærð við Ítalíu, heyra grimmdarleg yfirráð þeirra sögunni til. Talið er að færri en þrjú þúsund vígamenn Ríkis íslams séu enn á lífi en áfram stafar þó ógn af þeim.

„Ríki íslams var sigrað hernaðarlega í Írak en samtökunum hefur ekki verið eytt,“ er haft eftir íraska herforingjanum Abu Mahdi al-Mohandis. „Liðsmenn þeirra eru enn til staðar á ýmsum stöðum og eru að reyna að fela sig á meðal óbreyttra borgara og í þorpum.“

Þannig felldu íraskir hermenn tíu sjálfsmorðsárásarmenn í göngum í nágrenni borgarinnar Kirkuk í dag. Mohandis segir hægt að tryggja öryggið í stærstu borgunum vegna viðveru hersins en enn sé nokkuð í land að tryggja það að fullu á landsvísu.

Talsmaður hernaðarbandalagsins gegn Ríki íslams undir forystu Bandaríkjamanna, Ryan Dillon, tekur undir það að þó samtökunum fela enn í sér hættu enda ekki verið endanlega eytt. Búist sé við að þau muni grípa á nýjan leik til hryðjuverka.

Þegar hafa borist frengir víða að af hryðjuverkaárásum í Írak. Vitað er að liðsmenn Ríkis íslams hafi komið sér fyrir á eyðimerkursvæðum þar sem erfitt er að ná til þeirra og grafið byrgi í sandinn sem alls ómögulegt sé að finna úr lofti.

Hisham al-Hashemi, sérfræðingur í hernaði Ríkis íslams, segir að hryðjuverkasamtökin séu þannig komin á byrjunarreit þar sem samtökin hafi hafið starfsemi sína.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert