Brottflutningur hersins að hefjast

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín, Rússlandsforseti. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að draga hluta rússneska hersins til baka frá Sýrlandi. Þetta fyrirskipaði hann í óvæntri heimsókn sinni til landsins. 

Bashar Assad, forseti Sýrlands, tók á móti Pútín er hann heimsótti herstöð Rússa í landinu, Hmeimim, að því er BBC greindi frá. 

Í mars á síðasta ári lýsti Pútín því yfir að hann ætlaði að draga meirihluta herliðs Rússa til baka frá Sýrlandi.

„Ég hef tekið ákvörðun: Stór hluti rússneska hersins í Sýrlandi snýr heim til Rússlands,” sagði Pútín í dag. 

Hann sagði að herliðið hafi aðstoðað sýrlenska herinn við að brjóta á bak aftur „þann hóp alþjóðlegra hryðjuverkamanna sem er best búinn til bardaga,” sagði hann og átti þar við Ríki íslams.

„Heimalandið þakkar ykkur, vinir mínir,” bætti forsetinn við. „Góða ferð heim og takk fyrir vel unnin störf.”

Yfir 340 þúsund manns hafa farist í Sýrlandi síðan styrjöldin í landinu braust út í mars 2011.

mbl.is