Fundu konunglegt salerni

Ólafskirkjan á Ögvaldsnesi.
Ólafskirkjan á Ögvaldsnesi. Ljósmynd/AnneCN

Hópur fornleifafræðinga, sem vinnur að fornleifagreftri og -rannsóknum á hinu gamla konungasetri Avaldsnes á Karmøy í Rogaland-fylki, hefur fundið áður óþekktar byggingarústir, og þar í það sem fornleifafræðingarnir telja vera einkasalerni konungs og halda sig geta leitt í ljós, með greiningu á úrgangi sem þar fannst, hvað Noregskonungar borðuðu á miðöldum.

Avaldsnes kallast Ögvaldsnes í konungasögum Snorra Sturlusonar eftir Ögvaldi Rögnvaldssyni konungi en Haraldur hárfagri hafði þar bústað á 9. öld og er haugur hans þar skammt frá, við Karmsund þar sem nú er bærinn Haugesund.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá klósettfundinum og ræðir við stjórnanda verkefnisins, Marit Synnnøve Vea, sem segir frá því að auk úrgangsleifanna hafi fornleifafræðingarnir fundið öxi á klósettinu. Ekki sé þó ljóst til hvers hún var notuð. „Kannski hefur einhver farið á klósettið og misst öxina ofan í það,“ segir Vea við NRK.

Fundur bygginganna við konungsbústaðinn hefur vakið mikla athygli í Noregi enda eru meira en 100 ár síðan konungsbústaður frá sama tímabili fannst síðast. Talið er að rústirnar séu af byggingum sem byggðar voru um eða fyrir árið 1300 og þýskir Hansakaupmenn brenndu til grunna árið 1368.

Varla elsta klósett Noregs

Vettvangsstjóri á svæðinu er Anette Sand-Eriksen, fornleifafræðingur við Háskólann í Ósló. Hún ræddi við mbl.is í kvöld og var meðal annars spurð hvort hún og hennar fólk teldu sig hafa fundið elsta klósett Noregs á Ögvaldsnesi.

„Konungsgarðurinn á Ögvaldsnesi er byggður á ofanverðri 13. öld en þá voru þegar liðin nokkur hundruð ár síðan Haraldur hárfagri sameinaði Noreg í eitt ríki. Það væri því erfitt að halda því fram að þarna sé komið elsta klósett Noregs. Til dæmis hafa fundist leifar af klósetti við Bispeallmenningen [gata í Ósló á miðöldum].“

En hvað telur Sand-Eriksen það athyglisverðasta við konungsgarðinn í Ögvaldsnesi? „Þessi konungsgarður var ekki lengi við lýði, eins og sést glöggt á því sem fundist hefur þar, svo það eru ekki einstakir hlutir sem finnast, sem er það merkilegasta, heldur að við höfum fundið þarna byggingar úr steini og byggingarlagið bendir til þess að þarna hafi verið steinhús sem hugsanlega var á tveimur og jafnvel þremur hæðum,“ segir Sand-Eriksen.

„Byggingarnar sjálfar eru merkilegasti fundurinn. Hér höfum við fundið tilhöggvinn kalkstein sem er mjög haganlega úr garði gerður. Slíkt getur sagt okkur svo mikið um byggingarnar þegar við leggjumst í eftirvinnsluna á því sem fundist hefur, til dæmis hvar dyr og gluggar hafi verið. Eins höfum við fundið kalkstein með leifum af því sem við teljum vera skotraufar sem segir okkur að staðurinn hefur verið varinn,“ segir Sand-Eriksen að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

https://www.funiceland.is - Ferðavefur
FunIceland.is er ferða- og upplýsingavefur um náttúru Íslands. Skoðaðu vefinn m...
DEK 30 KW Rafstöðvar
Eigum 30 kw rafstöð á lager, góð reynsla, og varahlutaþjónusta. 1275.000 + vsk ...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Tek að mér byggingastjórn og uppáskrift húsasmíðameistara. Nýbyggingar, viðhald...
4949 skart hálfesti og armband
Er með nokkrar hálsfestar og armbönd úr 4949 línunni til sölu hægt að skoða inná...
 
Skattadagurinn
Fundir - mannfagnaðir
SKATTADAGUR FLE Ráðstefna um skattam...
L edda 6018011619i
Félagsstarf
? EDDA 6018011619 I Mynd af auglýsin...
L helgafell 6018011019 vi
Félagsstarf
? HELGAFELL 6018011019 VI Mynd af au...
Félagsstarf aldraðra
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...