Viðskiptabannið hindrar neyðaraðstoð til íbúa

Kona ýtir vagni á undan sér eftir götu í borginni …
Kona ýtir vagni á undan sér eftir götu í borginni Chongjin í Norður Kóreu. Talið er að um 70% af íbúum landsins þjáist af matarskorti. AFP

Viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna í garð  Norður-Kóreu hafa áhrif á þá neyðaraðstoð sem berst íbúum landsins. Þetta kom fram í máli Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Norður-Kóreu.

Sagði Al Hussein viðskiptaþvinganirnar gera hjálparstofnunum erfitt um vik að koma neyðaraðstoð til íbúa landsins. Talið er að um 18 milljónir Norður-Kóreubúa, eða um 70% af íbúum landsins, þjáist af matarskorti og að hjálparstofnanir séu raunveruleg „líflína“ fyrir 13 milljónir þeirra.

„Viðskiptaþvinganirnar kunna að hafa slæm áhrif á þessa nauðsynlegu aðstoð,“ sagði Al Hussain. Bað hann Öryggisráðið að framkvæma mat á áhrifum viðskiptaþvingananna á mannréttindi íbúa og hvatti þá til að grípa til aðgerða til að draga úr þeim. Þvinganirnar sem m.a. hafa falið í sér aukið eftirlit með bankafærslum hafa hægt verulega á aðgerðum Sameinuðu þjóðanna í Norður-Kóreu, m.a. á „afhendingu matarsendinga, heilbrigðisgagna og annarri mannréttindaaðstoð,“ bætti hann við.

Undanfarið ár hefur Öryggisráðið í þrígang hert á viðskiptaþvingunum sínum gegn Norður-Kóreu í því skyni að reyna að fá norðurkóreska ráðamenn til að hætta við kjarnorkuvopnaáætlun sína.

Öryggisráðið mun síðar í dag hlýða á skýrslu mannúðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna á því hvaða áhrif viðskiptaþvinganirnar hafa haft. Segir AFP-fréttastofan Kína og Rússland hafi reynt að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir fundinn og að ríkin hafi þar notið stuðnings Bólivíu, en að ákveðið hafi verið að láta hann fara fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert