Vilja að þingið rannsaki Trump

Rachel Crooks, Jessica Leeds, Samantha Holvey og forstjóri Brave New …
Rachel Crooks, Jessica Leeds, Samantha Holvey og forstjóri Brave New Films, Robert Greenwald, vilja að þingið rannsaki ásakanirnar. AFP

Þrjár konur sem sakað hafa Donald Trump Bandaríkjaforseta um kynferðislega áreitni og misnotkun, hafa krafist þess að þingnefnd taki málið til rannsóknar. BBC greinir frá.

Á fundi með fréttamönnum í New York sökuðu konunar Trump um að hafa káfað á sér, klipið, kysst sig með valdi, niðurlægt og áreitt.

Konurnar Jessica Leeds, Samantha Holvey og Rachel Crooks lýstu ásökununum stuttu áður í beinni útsendingu í sjónvarpið.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að fullyrðingar kvennanna séu falskar.

Fréttamannafundurinn í dag var skipulagður af Brave New Films kvikmyndafyrirtækinu sem í síðasta mánuði sendi frá sér heimildamyndina 16 konur og Donald Trump, þar sem fjallað er um ásakanir fjölda kvenna.

Leeds, Holvey og Crooks greindu upphaflega opinberlega frá ásökunum sínum mánuði fyrir forsetakosningarnar í fyrra. Ásakanir þeirra hafa nú nú fengið aukna athygli á ný í kjölfar þeirra hneykslismála tengd kynferðislegri misnotkun og áreitni sem beinst hafa gegn fjölda þekktra einstaklinga undanfarna mánuði.

Holvey sagði í samtali við NBC sjónvarpsstöðina í morgun að Trump hefði starað girndaraugum á sig og aðra þátttakendur í Ungfrú Bandaríkin fegurðarsamkeppninni sem hann átti.

„Meðferðin sem konur sæta daglega“

Holvey, sem var ungfrú Norður-Karólína 2006, sagði Trump hafa glápt á þær allar. „Hann horfði á mig eins og ég væri kjötstykki. Mér leið mjög illa á eftir,“ sagði hún.

Hún sagði síðar á fundinum með fréttamönnum. „Þeir hafa rannsakað þingmenn, þannig að ég tel bara réttlátt að Trump sé líka rannsakaður. Þetta er ekki flokksbundið mál. Þetta er meðferðin sem konur sæta daglega.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrjár konur hafa nú krafist þess að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrjár konur hafa nú krafist þess að þingnefnd rannsaki ásakanir sínar í garð forsetans um kynferðislega áreitni og misnotkun. AFP

Leeds, sem nú er um sjötugt, segist hafa setið við hlið Trumps í flugvél er hún var 38 ára og að hann hafi misþyrmt henni kynferðislega í fluginu. Hún segist hafa stigið fram af því að hún vilji að „fólk viti hvernig maður Trump er. Hverskonar pervert hann er.“

Crooks segir Trump hafa kysst sig á munninn fyrir framan lyftu í Trump turninum þegar hún starfaði sem móttökustúlka hjá fasteignafyrirtæki í húsinu.

„Ég var í áfalli,“ segir hún. „Eyðilögð.“

Í yfirlýsingu Hvíta hússins segir að ásakanirnar séu falskar. Í flestum tilfellum geti vitni rengt þau og að þær hafi verið ræddar í þaula í kosningabaráttunni í fyrra.

„Tímasetningin og fáránleiki þessara fölsku ásakana segir sitt og almenningsherferðin sem hefur hafist staðfestir bara frekar pólitísku ástæðurnar að baki þeim,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert