CNN leiðréttir frétt um tölvupósta

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

CNN hefur leiðrétt rangfærslur í frétt um kosningabaráttu Donald Trump og aðgengi að tölvupóstum varðandi framboð Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Hakkarar brutust inn í tölvuver beggja flokkanna, demókrata og repúblikana, og náðu m.a. í trúnaðarlega tölvupósta varðandi fjáröflun og forsetaframboð Hillary Clinton. Þessi gögn tóku senn að birtast á vefsíðum eins og WikiLeaks. 

Í frétt sem birt var á vef CNN á föstudagsmorguninn og var til umfjöllunar á sjónvarpsstöð CNN það sem eftir lifði dags, kom fram að Trump, sonur hans, Donald Trump yngri, og fleiri einstaklingar sem tengdust kosningabaráttu Trumps, hafi fengið tölvupóst 4. september 2016 þar sem þeim var boðinn aðgangur að vefsíðu og dulkóðunarlykli að gögnunum sem Wikileaks birti. En nú hefur komið í ljós að dagsetningin er ekki rétt í frétt CNN. Hið rétta er 14. september en það var Washington Post sem upplýsti um þá dagsetningu. Auk CNN birtu CBS og MSNBC söguna um tölvupóstana á föstudag. 

Í frétt Politico í dag kemur fram að dagsetningin skipti hér öllu máli því WikiLeaks birti gögnin 13. september og því ljóst að Trump og félagar fengu ekki tölvupóstinn sendan fyrr en eftir að WikiLeaks var byrjað að birta gögnin og höfðu Trump og félagar því hvort sem er aðgang að gögnunum líkt og allir aðrir. 

Í tilkynningu frá CNN kemur fram að fréttin hafi verið leiðrétt. Mbl.is birti ekki frétt CNN á föstudag en hægt er að lesa frétt CNN hér að neðan.

Frétt Politico

Frétt CNN

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert