Illa gengur að ná tökum á eldinum

AFP

Slökkviliðsmenn í Kaliforníu halda áfram að berjast við eina mestu skógarelda sem geisað hafa frá upphafi. Hvassviðri og miklir þurrkar hafa gert það nánast ómögulegt að ná tökum á eldunum. Yfir 94 þúsund hektarar lands hafa nú orðið eldinum að bráð. BBC greinir frá.

900 byggingar, þar á meðal 690 heimili, hafa eyðilagst í eldunum, sem eru þeir fimmtu mestu í sögu ríkisins. 94 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín síðustu vikuna. Þá hefur skólahaldi víða verið aflýst þangað til á næsta ári.

Þrátt fyrir að eldarnir haldi áfram að breiðast út telja slökkviliðsmenn sig nú hafa náð tökum á um 20 prósent eldanna, en á sunnudag voru það um 10 prósent.

Um 7.000 slökkviliðsmenn hafa barist við eldanna en mikill hall og grýtt landsvæði hefur gert þeim enn erfiðara fyrir. Talsmaður slökkviliðsmanna á svæðinu sagði menn ekki senda af stað í þær hættulegu aðstæður sem væru fyrir hendi, heldur væri beðið eftir því að eldurinn næði öruggari stað svo hægt væri að ráða niðurlögum hans. Nokkrir slökkviliðsmenn hafa slasast og 70 ára kona hefur fannst látin í bíl sínum.

Átta dagar eru síðan eldarnir kviknuðu, en sex stórir eldar og fleiri minni kviknuðu í byrjun síðustu viku í suðurhluta ríkisins. Stærsti eldurinn hefur fengið nafnið The Thomas Fire eða Tómasareldurinn, eftir svæðinu þar sem hann kviknaði, nálægt Thomas Aquinas College.

Frétt mbl.is: „Sjokkerandi að vera í kringum þetta“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert