Síðasti liðhlaupinn látinn

Charles Jenkins.
Charles Jenkins. AFP

Charles Jenkins, Bandaríkjamaðurinn sem gerðist liðhlaupi 1965 og flúði til Norður-Kóreu, er látinn 77 ára að aldri. Jenkins sat í stofufangelsi í tæp 40 ár í Norður-Kóreu en bjó í Japan ásamt fjölskyldu sinni eftir að hann var látinn laus úr haldi árið 2004.

Hann var meðal fjögurra bandarískra hermanna sem gerðust liðhlaupar og urðu kvikmyndastjörnur í Norður-Kóreu. Jenkins var sá eini þeirra sem síðar var látinn laus. Hinir þrír létust allir í Norður-Kóreu en sá síðasti lést í fyrra, James Dresnok. 

Charles Jenkins lést í gær á Sado-eyju þar sem hann bjó ásamt japanskri eiginkonu sinni, Hitomi Soga, sem einnig var fangi í Norður-Kóreu á sínum tíma. 

BBC segir að Jenkins hafi fengið hjartaáfall á heimili sínu og látist síðar á sjúkrahúsi. Eiginkona hans segir að dauði hans hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti en hann hafði ekki kennt sér meins.

Saga Jenkins er afar óvenjuleg. Hann hvarf nærri hlutlausa svæðinu, sem skilur að N- og S-Kóreu árið 1965, og var æ síðan eftirlýstur af Bandaríkjaher vegna liðhlaups. Mun Jenkins hafa viljað komast hjá því að verða sendur til Víetnams. Norður-kóreskir ráðamenn settu Jenkins hins vegar í eins konar stofufangelsi, neyddu hann til að kenna liðsforingjaefnum Norður-Kóreuhers ensku og létu hann leika bandarísk illmenni í áróðursmyndum.

Mál Jenkins komst ekki síst í hámæli sökum þess hversu mikla samúð almenningur í Japan hafði með þeim hremmingum sem eiginkona Jenkins, Hitomi Soga, hefur þurft að ganga í gegnum á lífsleiðinni.

Ástæðan er sú að Soga var á sínum tíma í hópi Japana sem norður-kóresk stjórnvöld rændu 1978, fluttu til Norður-Kóreu og neyddu þar til að kenna útsendurum leyniþjónustunnar japönsku. Vissi enginn hvað um hana hafði orðið fyrr en mörgum árum síðar.

Soga kynntist Jenkins í N-Kóreu, giftist honum og eignaðist tvær dætur en þegar N-Kóreumenn slepptu Soga og sjö öðrum, í kjölfar heimsóknar þáverandi forsætisráðherra Japans, fékk hún ein að yfirgefa landið en Jenkins varð eftir ásamt dætrum þeirra. Þorði Jenkins lengi vel ekki að fara til fundar við eiginkonu sína í Japan af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna, en þar átti hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm fyrir liðhlaup.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert