Tapaði Brexit atkvæðagreiðslu eftir uppreisn

Bekkurinn var þétt setinn er þingmenn kusu um viðauka við …
Bekkurinn var þétt setinn er þingmenn kusu um viðauka við Brexit frumvarpið. AFP

Breska þingið kaus nú í  kvöld að þingmenn fái lagalega tryggingu á því að þingið fái að hafa lokaorðið varðandi þá samninga sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, kunni að ná hjá Evrópusambandinu varðandi útgöngu Bretlands úr ESB.

BBC segir stjórn May hafa tapað atkvæðagreiðslunni með naumindum eftir að 12 þingmenn Íhaldsflokksins gerðu uppreisn og hlupust undan merkjum. Var viðaukinn samþykktur með 309 atkvæðum gegn 305.

Málið er sagt vera áfall fyrir May, en stjórnin hefur haldið fram að viðaukinn kunni að koma í veg fyrir hnökralausa útgöngu Breta úr sambandinu.

Af þeim 12 þingmönnum Íhaldsflokksins sem samþykktu viðaukann, eru átta fyrrverandi ráðherrar m.a. Stephen Hammond, sem var rekinn sem varaformaður þingflokksins, að lokinni atkvæðagreiðslunni.

„Ég kvöld set ég land og kjósendur framar flokkinum og kýs með sannfæringu og veiti þinginu þýðingarmikið atkvæði,“ sagði Hammond á Twitter.

BBC hefur eftir ríkisstjórninni að atkvæðagreiðslan sé „vonbrigði“, þetta sé fyrsti Brexit ósigurinn, þrátt fyrir þá miklu fullvissu sem stjórnvöld hefðu boðið.

Leiðtogafundur ESB ríkja hefst á morgun, en þar mun May ræða útgöngu Breta við aðra leiðtoga ESB ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert