Yfir 30 manns létust í loftárás í Jemen

Loftárás Sádi-Araba á fangelsi í Sanaa.
Loftárás Sádi-Araba á fangelsi í Sanaa. AFP

Að minnsta kosti 30 manns létust og fjölmargir særðust í loftárás Sádi-Araba á fangelsi í borginni Sanaa í Jemen. Flestir hinna látnu eru fangar sem sátu þar inni. Í fyrri árásinni var ein álma hússins sprengd upp og freistuðust margir til að flýja en skömmu seinna var gerð önnur loftárás sem gjöreyðilagði húsið. BBC greinir frá.

Árásarmennirnir styðja ríkisstjórnina í Jemen í stríði þeirra gegn hútum en margir sem sátu inni voru uppreisnarmenn úr þeirra röðum. Hút­ar hófu upp­reisn árið 2004 gegn rík­is­stjórn lands­ins sem var aðallega skipuð súnnímúslim­um. Upp­reisn­ar­menn­irn­ir beittu skæru­hernaði með hlé­um þar til borg­ara­stríð blossaði upp fyr­ir rúm­um tveim­ur árum.    

Yfir 8.670 manns hafa látist og tæplega 50 þúsund manns hafa særst illa eftir að átökin brutust út árið 2015, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Í ofanálag býr tæp 21 milljón manna við mikla neyð, hungursneyð og skort á heilbrigðisþjónustu. Kólera hefur breiðst út á ógnarhraða og hafa 2.219 látist af völdum hennar frá því í apríl.  

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert