„Ég var algjörlega niðurbrotin“

AFP

Tónlistarframleiðandinn Russell Simmons nauðgaði að minnsta kosti þremur konum sem voru á mála hjá tónlistarfyrirtæki hans Def Jam Recordings. Þetta segja konurnar í viðtali við New York Times í dag. Simmons, sem nýverið hætti störfum hjá fyrirtækinu vegna ásakana um misnotkun, neitar ásökunum þeirra sem og öðrum sem á hann hafa verið bornar að undanförnu.

Simmons, sem er goðsögn í hip-hop-bransanum, neitar því að hafa nauðgað konunum en brotin áttu sér stað á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hann tekur fram að hann styðji fullkomlega hreyfingu kvenna sem stigið hafa fram og rætt um kynferðislega áreitni af hálfu karla.

Simmons, sem er sextugur að aldri, greindi frá því 30. nóvember að hann ætlaði að láta af störfum hjá fyrirtæki sínu eftir að tvær konur stigu fram og sökuðu hann um ofbeldi.  

Í grein New York Times í dag er Simmons sakaður um að hafa níðst á konum sem voru að stíga sín fyrstu skref í tónlistariðnaðinum.

Meðal þeirra er söngkonan Tina Baker sem var meðal annars bakraddasöngkona hjá Madonnu og Bruce Springsteen. Hún segir að Simmons hafi boðið henni í íbúð sína í byrjun tíunda áratugarins þegar hann var umboðsmaður hennar. Þar hélt hann henni niðri og nauðgaði henni. Samkvæmt frétt NYT hafa fjórar manneskjur, henni nákomnar, staðfest þetta. „Ég stundaði ekki kynlíf í tæp níu ár eftir þetta,“ segir Baker í viðtalinu og segist hafa dregið sig inn í híði og ekki getað sungið í um ár eftir ofbeldið sem hann beitti hana.

Simmons segir að hann hafi stundað kynlíf með Baker og í yfirlýsingu harðneitar hann ásökununum.

Ólíkt mörgum öðrum í hip-hop-bransanum hefur Simmons búið til þá mynd af sér að vera andlega þenkjandi, hann stundi jóga og sé vegan. 

NYT greinir einnig frá atviki sem átti sér stað árið 2014 þar sem kona greinir frá því að Simmons hafi káfað á henni á hóteli í Miami.

Árið 1995 var Drew Dixon í draumastarfinu sem stjórnandi hjá Def Jam Recordings. Eftir því sem stjarna hennar hækkaði á lofti leið henni verr andlega. Hún segir að ástæðuna megi rekja til ítrekaðar kynferðislegrar áreitni af hálfu yfirmanns hennar, Russells Simmons. Þegar þau ræddu saman um málefni tengd starfinu í síma talaði hann fjálglega um hvernig hún kæmi honum til kynferðislega. Á starfsmannafundum bað hann hana að sitja í kjöltu sinni. Hann beraði kynfæri sín ítrekað fyrir henni og undir lok árs nauðgaði hann henni í íbúð sinni á Manhattan. Hún hætti störfum hjá fyrirtækinu fljótlega eftir þetta. „Ég var algjörlega niðurbrotin,“ segir hún í viðtali við NYT.

Russell Simmons er einn þekktasti mógúllinn í hip-hop tónlistarsenunni.
Russell Simmons er einn þekktasti mógúllinn í hip-hop tónlistarsenunni. AFP

Í viðtölum við blaðamenn NYT ræddu fjórar konur um ákveðið mynstur í kynferðislegu ofbeldi af hálfu Simmons. Þrjár þeirra saka hann um nauðgun en brotin voru framin á árunum 1988 til 2014. Í öllum tilvikum staðfesta nánir vinir frásagnir kvennanna og að þær hafi sagt þeim frá skömmu eftir að brotið var gegn þeim. 

Frétt New York Times í heild 

Simmons og félagi hans, Rick Rubin, komu mörgum af helstu hip-hop-stjörnum Bandaríkjanna á framfæri, svo sem Beastie Boys, LL Cool J og Public Enemy.

Tavis Smiley
Tavis Smiley Wikipedia/Larry D. Moore

Bandaríska sjónvarpsstöðin Public Broadcasting Service, PBS, hefur leyst þáttastjórnandann Tavis Smiley frá störfum vegna ásakana í hans garð um kynferðislega áreitni í garð kvenna. NewHour hefur eftir talsmanni PBS að fyrirtækið hafi ráðið lögmannsstofu til þess að fara ofan í saumana á málinu og í ljós hafi komið afar trúverðugar ásakanir í hans garð sem brjóti gegn gildum PSB.

Smiley segir í yfirlýsingu að ekkert sé hæft í þessum ásökunum og fer hörðum orðum um rannsókn PBS.

„Svo það sé á hreinu þá hef ég aldrei káfað á eða þuklað eða hegðað mér á ósæmilegan hátt gagnvart vinnufélögum á neinum vinnustað allan minn starfsferil, sem spannar 30 ár á sex sjónvarpsstöðvum,“ segir Smiley í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert