Pútín: Andstæðingar Trumps skaða Bandaríkin með tilbúnum sögum

Pútín Rússlandsforseti segir að Trump hafi náð að afreka margt …
Pútín Rússlandsforseti segir að Trump hafi náð að afreka margt merkilegt. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að andstæðingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta skaði Bandaríkin með því að „búa til sögur“ um tengsl Trumps við Rússland. Pútín lét ummælin falla á árlegum blaðamannafundi.

Þar sagði hann enn fremur, að samskipti á milli aðstoðarmanna Trumps og rússneskra embættismanna væru með eðlilegum hætti. Þetta kemur fram á vef BBC.

Pútín segir að andstæðingar Bandaríkjaforseta séu ekki að sýna almenningi sem kaus Trump virðingu.

Pútín og Trump á leiðtogaráðstefnu í Þýskalandi í júlí á …
Pútín og Trump á leiðtogaráðstefnu í Þýskalandi í júlí á þessu ári. AFP

Verið er að rannsaka hvort Trump og aðstoðarfólk hans hafi átt í leynimakki með rússneskum yfirvöldum í kosningabaráttunni í fyrra. 

Fram kemur á vef BBC, að bandarískar leyniþjónustustofnanir hafi komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk yfirvöld hafi reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetkosningarnar Trump í vil. Pútín neitar þessu alfarið. 

„Þetta er allt tilbúningur þeirra sem eru í andstöðu við Trump í því augnamiði að láta hans störf líta út fyrir að vera óeðlileg.“

Rússlandsforseti bætti við, að hann sé þeirrar skoðunar að Trump beri ábyrgð á mjög miklum framförum en hefði ekki verið í þeirri aðstöðu að efla og bæta tengslin við Rússland. 

Margir fylgdust með árlegum blaðamannafundi Pútíns í dag.
Margir fylgdust með árlegum blaðamannafundi Pútíns í dag. AFP

Pútín vonast til að þetta muni gerast. Hann bætir við að vonandi geti Bandaríkin og Rússland gert ýmislegt með betri árangri á alþjóðavísu. Hann nefndi málefni Norður-Kóreu sem dæmi þar sem Rússar og Bandaríkjamenn gætu unnið saman. 

Hann tók þó fram að bandarísk stjórnvöld hafi með fyrri aðgerðum sínum ögrað yfirvöldum í Norður-Kóreu með þeim afleiðingum að þau hafi brotið gegn gildandi samkomulagi. Pútín hvatti alla til að anda rólega. 

Stjórnvöld í N-Kóreu vilja þróa og smíða kjarnorkuvopn sem hefur leitt til þess að bandarísk stjórnvöld, og helstu bandalagsþjóðir þeirra, hafa gripið til stórhertra refsiaðgerða og viðskiptaþvingana gagnvart N-Kóreu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert