Mjótt á mununum í Katalóníu

Litlu munar á fylgi stuðningsmanna og andstæðinga sjálfstæðis í Katalóníu, ef marka má skoðanakannanir. Gengið verður til kosninga í héraðinu á fimmtudag.

Katalónska þingið samþykkti í lok október að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni, en kosið var um sjálfsstjórn héraðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu byrjun október. Ríkisstjórn Spánar svipti Katalóníu sjálfsstjórn í kjölfar yfirlýsingarinnar og boðaði til kosninga í héraðinu.

Skoðanakannarnir sem BBC greinir frá benda til þess að Lýðveldissinnaði vinstriflokkur Katalóníu (ERC) muni hljóta flest þingsæti, 33 talsins. Fast á hæla hans mælist miðhægriflokkurinn Borgararnir (Ciudadanos) með 30-31 þingsæti. Flokkurinn vill að Katalónía tilheyri Spáni.

JxCat, flokkur Carles Puidgemont, fyrrverandi forseta héraðsstjórnarinnar, fengi þriðja mesta fylgi, eða 27 þingsæti. Verði þetta niðurstaðan næðu sjálfstæðissinnar ekki meirihluta á héraðsþinginu.

Puidgemont hefur lýst því yfir að ef sjálfstæðissinnar sigri í kosningunum verði spænsk yfirvöld að fella ákærur á hendur honum niður. Puidgemont er ákærður fyrir uppreisn gegn spænska ríkinu og hefur hann dvalið í Belgíu frá því að ákæran var gefin út.

Helsti keppinautur Puidgemont, Oriol Junqueras, sem er leiðtogi ERC, situr í fangelsi á Spáni.

Héraðskosningar fara fram í Katalóníu á fimmtudag.
Héraðskosningar fara fram í Katalóníu á fimmtudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert