Skutu eldflaug til Riyadh

Frá Riyadh. Myndin er úr safni.
Frá Riyadh. Myndin er úr safni. AFP

Hernaðarbandalagið sem berst gegn uppreisnarmönnum húta í Jemen segist hafa stöðvað för skotflaugar í borginni Riyadh í Sádi-Arabíu. Sádi-Arabar leiða bandalagið í hernaði sínum í Jemen.

Sjónarvottar hafa birt myndskeið og myndir á samfélagsmiðlum sem sýna reykjarbólstra á himni í borginni. Engar fregnir hafa borist af mannfalli eða skemmdum. 

Sjónvarpsstöð sem hútar reka segja að uppreisnarmennirnir hafi skotið Burkan-2-skotflaug að Yamama-hótelinu í Riyadh. Í nóvember var sambærilegri eldflaug skotið í átt að flugvellinum í borginni. Hafi uppreisnarmennirnir skotið flauginni frá Saada-héraði í norðurhluta Jemen hefur hún farið um 850 kílómetra leið til Riyadh. Hútar ráða lögum og lofum nyrst í Jemen og hafa síðustu mánuði reynt að sölsa undir sig stærri landssvæði.

Sádi-Arabar og Bandaríkjamenn hafa sakað Írana um að sjá hútum fyrir vopnum í stríðinu í Jemen. Því hafa írönsk stjórnvöld ávallt hafnað. 

Stríðið í Jemen hefur staðið yfir í tæplega þrjú ár. Talið er að um 10.000 hafi fallið þar af um 5.000 óbreyttir borgarar. Að auki hefur hungursneyð gert var við sig á sumum svæðum og þúsundir látist úr smitsjúkdómum og hungri.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert