Stúlka handtekin fyrir að slá hermann

Stúlkan sést slá til hermanns sem stóð fyrir utan húsið.
Stúlkan sést slá til hermanns sem stóð fyrir utan húsið. Skjáskot/Facebook

Ísraelskir hermenn handtóku palestínska stúlku sem sló til eins úr þeirra röðum í mótmælum við hús á Vesturbakkanum. Atvikið náðist á myndband.

Stúlkan heitir Ahemd Tamimi og er sautján ára. Hún er sökuð um líkamsárás og að hafa tekið þátt í ofbeldisfullum mótmælum.

Í frétt BBC segir að upptakan af atvikinu sé frá því á föstudag. Á því megi sjá hóp kvenna gera hróp að ísraelskum hermönnum og slá tvo þeirra. Hvorugur sést svara fyrir sig.

En faðir stúlkunnar segir að myndbandið segi aðeins brot af því sem gekk á. Áður hafi hermennirnir beitt táragasi og brotið rúður í húsi fjölskyldunnar. Þá er því haldið fram að fjórtán ára frændi stúlkunnar hafi verið skotinn með gúmmíkúlu fyrr um daginn.

Ísraelsher segir að fólkið sem hafi komið saman til mótmæla hafi kastað steinum. Hópur hafi m.a. komið sér fyrir inni í húsinu og kastað þaðan steinum að hermönnum. Hermennirnir hafi fjarlægt fólkið og staðið í inngangi hússins til að koma í veg fyrir að fleiri færu þangað inn. Þá hafi kvennahópurinn komið að þeim og hermennirnir verið slegnir.

Í yfirlýsingu frá hernum segir að handtaka hafi mátt fólkið á staðnum þar sem það hafi „beitt ofbeldi og truflað hermenn við störf sín.“

Á myndskeiðinu má heyra stúlkuna segja hermönnunum að fara frá heimilinu. Þegar þeir hreyfa sig ekki úr sporunum kýlir hún og sparkar í þá. Önnur stúlka sést svo ýta við og sparka í hermennina.

Faðir stúlkunnar segir að hermennirnir hafi ruðst inn á heimili hans í morgun og handtekið dóttur hans. Þá hafi þeir tekið síma þeirra og tölvur. Hann segir að hermennirnir hafi einnig barið konu hans og börn.

Í frétt BBC segir að Ahed Tamimi hafi áður komist í fréttirnar vegna samskipta sinna við ísraelska hermenn. Fyrir tveimur árum er hún sögð hafa bitið einn þeirra í höndina en sá hélt þá á palestínskum dreng sem var sakaður um að hafa kastað grjóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert