Allsherjarþing SÞ boðar til neyðarfundar

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kemur saman á fimmtudag.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kemur saman á fimmtudag. AFP

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á fimmtudag á neyðarfundi. Á dagskrá fundarins er atkvæðagreiðsla um drög að ályktun gegn ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Banda­rík­in beittu neit­un­ar­valdi sínu í ör­ygg­is­ráði SÞ á mánudag þegar greidd voru atkvæði um að synja ályktun Trumps. Tyrkland og Jemen óskuðu, fyrir hönd Samtaka íslamskra ríkja, eftir að allsherjarþingið yrði kallað saman.

Gögnum hefur verið dreift til allra 193 ríkjanna sem eiga sæti á þinginu. Í þeim kemur meðal annars fram að yf­ir­lýs­ing um stöðu Jerúsalem hafi ekk­ert laga­legt gildi og að fella verði hana úr gildi. Ekki er minnst á Trump eða Bandaríkin í gögnunum.

Riyad Mansour, sendiherra Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, á von á miklum stuðningi í þeim aðgerðum sem fram undan eru til að leysa málefni tengd Jerúsalem með viðræðum á milli Ísraela og Palestínumanna. „Allsherjarþingið mun álykta, án þess að hræðast neitunarvald, að alþjóðasamfélagið neiti að samþykkja einhliða afstöðu Bandaríkjanna,“ segir Mansour.

Ekkert ríki hefur neitunarvald á allsherjarþinginu, ólíkt því fyrirkomulagi sem ríkir í öryggisráðinu, þar sem fastaríkin fimm, Bandaríkin, Bretland, Kína, Frakkland og Rússland, búa yfir neitunarvaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert