Banna komu mannréttindafulltrúa til Búrma

Loftmynd af brenndu þorpi í nágrenni Maungdaw í Rakhine-héraði í …
Loftmynd af brenndu þorpi í nágrenni Maungdaw í Rakhine-héraði í Búrma, sem tekin var nú í haust. Rúmlega 650.000 rohingjar hafa flúið til nágrannaríkisins Bangladess frá því í lok ágúst. AFP

Rannsakanda Sameinuðu þjóðanna á ástandi mannréttindamála í Búrma (Mjanmar) hefur verið bannaður aðgangur að landinu.

Til stóð að Yanghee Lee færi til Búrma í janúar til að kynna sér ástand mannréttindamála, m.a. meintar árásir á rohingja-múslima í Rakhine-héraðinu.

Yfirvöld í Búrma greindu frá því í gær að 10 lík hefðu fundist í fjöldagröf í þorpi í héraðinu.

Stjórnvöld í Búrma segjast banna Lee að koma til landsins þar sem hún gæti ekki hlutleysis í vinnu sinni. Lee segir hins vegar ákvörðunina benda til þess að „eitthvað verulega hryllilegt“ eigi sér staði í Rakhine-héraðinu. Lee var síðast í Búrma í júlí á þessu ári, en þá lýsti hún yfir áhyggjum af þeirri meðferð sem rohingjar sættu í Rakhine héraði.

Til átaka kom í héraðinu í ágúst eftir að uppreisnarmenn Arsa, sem eru af þjóðflokki rohingja, réðust á lögreglustöðvar. Herinn brást við árásunum með harkalegum hætti.

Frá þeim tíma hafa rúmlega 650.000 rohingjar, um tveir þriðju íbúafjöldans, flúið til nágrannaríkisins Bangladess.

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra telja að 6.700 rohingjar hið minnast hafi verið myrtir á mánaðartímabili, milli 25. ágúst og 24. september.  Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar greint frá því að aðgerðir Búrmahers í héraðinu geti mögulega flokkast sem þjóðarmorð.

Ríktu miklar vonir um Búrma

BBC hefur eftir Lee að sú ákvörðun yfirvalda í Búrma að banna för hennar „hryggi hana mikið“.

„Það ríktu svo miklar vonir um að Búrma yrði frjálst lýðræðisríki,“ sagði hún og kvaðst vonsvikin yfir að öllum mannréttindasamtökum hafi verið bannaður aðgangur að landinu.

Rohingjar á leið yfir til Bangladess.
Rohingjar á leið yfir til Bangladess. AFP

„Ég vona einlæglega að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína um heimsókn mína af því að það væri veruleg synd ef Búrma velur að fara þessa leið.“

Zaw Htay, talsmaður stjórnvalda í Búrma, sagði við AFP-fréttastofuna að heimsókn Lee hafi verið bönnuð af því að hún væri hlutlæg og „ekki hægt að treysta henni“.

Herinn heitir að hinir seku verði látnir sæta ábyrgð

Á meðan rannsakar herinn í Búrma fund á tíu líkum í fjöldagröf í þorpinu Inn Din sem er á því svæði þar sem verstu ofbeldisverkin eru talin hafa verið framin.

Herinn hefur birt myndir af gröfinni á Facebook og segist munu rannsaka „sannleikann á bak við“ hana og er því heitið að reynist liðsmenn öryggissveita sekir þá verði þeir látnir sæta ábyrgð.

AFP hefur eftir heimildamönnum að drápin kunni að hafa átt sér stað fyrir allt að einu ári síðan og að ekki sé ljóst af hverjum líkin séu.

Reuters fréttstofan greindi frá því í síðustu viku að tveir fréttamenn þeirra væru í varðhaldi í Búrma, en lögregla í landinu segist vera að rannsaka hvort þeir hafi brotið lög um leynd. Fjölmiðlar segja hins vegar að fréttamennirnir hafi verið með myndir og gögn frá íbúum í Inn Din, þorpinu þar sem fjöldagröfin fannst.

Zaw Htay segir rannsóknina á máli þeirra Wa Lone og Kyaw Soe Oo vera „næstum lokið“ og að þeim verði leyft að hitta lögfræðinga sína og fjölskyldur fljótlega.

Ráðamenn í Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Bretlandi og fleiri löndum hafa fordæmt varðhaldið og segja það árás á frelsi fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert