Trump eyðilagði fögnuð jólanna

Erkibiskupinn er ekki mjög hrifinn af ákvörðun Trump.
Erkibiskupinn er ekki mjög hrifinn af ákvörðun Trump. AFP

Erkibiskupinn Pierbattista Pizzaballa, æðsti fulltrúi kaþólsku kirkjunnar í Jerúsalem, segir ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að lýsa borgina höfuðborg Ísrael, hafa eyðilagt fögnuð jólanna og leitt til þess að hundruð manns hafi aflýst ferðum sínum til Jerúsalem. AFP-fréttastofan greinir frá.

Hann segist vita um á annan tug hópa sem hafi hætt við að ferðast til borgarinnar um jólin eftir yfirlýsinguna af ótta við átökin sem kynnu að fylgja í kjölfarið.

Hann sagði að fulltrúar kirkjunnar í Jerúsalem ættu erfitt með að samþykkja beiðni Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um að heimsækja kristinn hluta borgarinnar í janúar. „Við getum hins vegar ekki sagt nei við pílagríma, við erum trúuð, við neitum fólki ekki, jafnvel ekki þó um sé að ræða mestu syndara heimsins,“ sagði Pizzaballa. „Stundum getum við þó ekki leitt hjá okkur afleiðingar pólitískra ákvarðana,“ bætti hann við án þess að útskýra það frekar. Opinber heimsókn Pence átti að fara fram nú í desember en henni hefur verið frestað fram í janúar.

AFP

„Auðvitað hefur þetta skapað spennu í kringum Jerúsalem og dregið athyglina frá jólunum,“ sagði Pizzaballa um ákvörðun Trump. „Það ríkir mikil spenna í Jerúsalem og einnig Betlehem. Þetta hefur fælt marga frá og það eru mun færri hérna en við bjuggumst við.“ Ákvörðunin hefur leitt til nærri daglegra átaka á svæðinu. Pizzaballa lagði áherslu á að kirkjan væri á móti slíkum einhliða ávörðunum um framtíð Jerúsalem. Hann sagði jafnframt að Pence ætti að hlusta meira á fólkið. Enginn hefði einkarétt á Jesú Kristi, ekki einu sinni þeir sem væru mótmælendatrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert