Flúði yfir landamærin

Norðurkóreskur hermaður stendur vörð við landamærin að Suður-Kóreu.
Norðurkóreskur hermaður stendur vörð við landamærin að Suður-Kóreu. AFP

Suðurkóreskir hermenn skutu í morgun viðvörunarskotum að norðurkóreskum öryggisvörðum sem voru að leita að hermanni sem flúði yfir landamærin. Hermaðurinn, sem er norðurkóreskur, hafði gengið yfir landamærin til suðurs í gegnum hlutlaust svæði sem þar er að finna. 

Herinn í Suður-Kóreu segir að hermaðurinn hafi birst út úr þykkri þokunni við eftirlitsstöð sunnan landamæranna. Hann er að minnsta kosti fjórði norðurkóreski hermaðurinn sem flýr land sitt í ár. 

Í nóvember flúði einn hermaður yfir landamærin og var skotinn ítrekað á flóttanum af norðurkóreskum öryggisvörðum. Hann komst hins vegar lífs af. 

Í dag tilkynnti suðurkóreska varnarmálaráðuneytið að hermenn hefðu skotið um 20 viðvörunarskotum að vörðum sem reyndu að handsama hermanninn eftir að hann fór yfir landamærin. 

Hermaðurinn er nú í haldi í Seoul þar sem rannsakað verður hvers vegna hann flúði. Mjög fáir Norður-Kóreubúar freista þess að flýja þessa leið enda eru landamæri ríkjanna undir stöðugu og miklu eftirliti hermanna beggja þjóða. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert