Barnastjörnur saka framleiðanda um misnotkun

Framleiðandinn Gary Goddard (t.v.) og leikarinn og fyrrverandi barnastjarnan Anthony …
Framleiðandinn Gary Goddard (t.v.) og leikarinn og fyrrverandi barnastjarnan Anthony Edwards.

Átta fyrrverandi barnastjörnur í Hollywood hafa stigið fram og sakað framleiðandann Gary Goddard um kynferðislega misnotkun eða tilraunir til misnotkunar. 

Í ítarlegri fréttaskýringu LA Times  segir að Goddard hafi í fleiri ár verið fenginn til að leiðbeina ungum leikurum í Santa Barbara í Kaliforníu. 

Leikararnir ásaka framleiðandann um allt frá tilraunum til óviðeigandi snertinga til kynferðisofbeldis.

Í nóvember greindi leikarinn Anthony Edwards, sem þekktastur er fyrir hlutverk bráðalæknis í sjónvarpsþáttunum ER, frá því að Goddard hefði misnotað hann kynferðislega er hann var drengur. Edwards lýsti Goddard sem með þeim orðum að hann hefði „lokkað litla stráka með viðurstyggilegum hætti“. 

Önnur barnastjarna, Mark Driscoll, segir í samtali við LA Times að hann hafi ávallt kviðið heimsóknum Goddards. „Ég vissi að ég þyrfti að upplifa hluti sem ég vildi ekki gera.“

Sam Singer, fjölmiðlafulltrúi Goddards, hafnar ásökununum og segir þær ekkert annað en sögusagnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert