Vill milljarð í bætur frá Weinstein

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein .
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein . AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein og fyrrverandi framleiðslufyrirtæki hans hafa verið kærð af fyrrverandi aðstoðarframleiðanda sjónvarpsþáttarins Marco Polo sem var sýndur á Netflix.

Krafist er tíu milljóna dala í skaðabætur, eða rúmlega eins milljarðs króna.

Málið var höfðað í New York fyrir hönd Alexöndru Cansosa sem sakar Weinstein um kynferðislega áreitni, líkamsárás og fyrir að hafa valdið henni andlegum skaða.

Í málshöfðuninni kemur fram að Canosa hafi orðið fyrir „umtalsverðum líkamlegum meiðslum, sárauka, þjáningu, niðurlægingu, sálarkvöl og andlegum skaða“.

Fram kemur að hún hafi orðið fyrir þessu af hálfu Weinstein í mörg ár.

Hin meintu atviku áttu sér stað þegar Cansosa starfaði hjá Weinstein og fyrirtæki hans en Weinstein var framleiðandi þáttarins Marco Polo.

Í málshöfðuninni kemur fram að Weinstein-fyrirtækið hafi vitað af því sem átti sér stað, ekkert gert í því og í raun stutt hann við athæfi sitt.

Yfir 100 konur hafa sakað Weinstein um kynferðisbrot, allt frá kynferðislegri áreitni til nauðgunar, síðan birtar voru greinar um ásakanir á hendur honum í The New York Times og The New Yorker í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert