Vegabréfin blá eftir Brexit

Vegabréfin í Bretlandi voru blá áður en landið fór inn …
Vegabréfin í Bretlandi voru blá áður en landið fór inn í Evrópusambandið.

Er útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verður lokið verða gefin út blá vegabréf með gylltum stöfum í landinu. Þetta segir ráðherra útlendingamála, Brandon Lewis. Þá þurfa vegabréfin ekki lengur að uppfylla staðla Evrópusambandsins, segir í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið. 

Í dag eru vegabréf sem gefin eru út í Bretlandi vínrauð. Eftir Brexit verða þau hins vegar aftur blá eins og þau voru þegar útgáfa þeirra hófst árið 1921. Litnum var breytt á sínum tíma er Bretar gengu í ESB.

Í frétt Sky segir að nýju vegabréfin verði öruggustu fáanlegu ferðaskilríki sem völ er á. Sú síða vegabréfsins þar sem persónuupplýsingar og mynd er að finna verður úr mjög sterku plastefni sem á að vera mjög erfitt og nær ómögulegt að breyta. 

„Með því að fara úr ESB gefst okkur tækifæri til að endurnýja þjóðareinkenni okkar og finna okkur nýjar leiðir í heiminum,“ hefur Sky eftir Lewis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert