Hírast í hriplekum tjöldum

AFP

Að eyða jólunum við bakka Saint-Martin-skurðarins í tíunda hverfi Parísarborgar hljómar örugglega dásamlega rómantískt í huga margra en ekki í huga þeirra hælisleitenda sem hírast í hriplekum og köldum tjöldum þar yfir hátíðarnar.

Meðal þeirra eru ungmenni eins og Omar, Jahan og Khater sem sofa í tjöldum við bakka skurðarins. „Kennararnir í skólanum kenndu okkur um Frakkland og hversu dásamlegt land það væri,“ segir Khater sem segir blaðamanni The Local að hann sé 15 ára gamall.

Hann býr í tjaldi viðSaint-Martin líkt og hundruð hælisleitenda. „Ég átti ekki von á að þetta yrði svona,“ segir hann þar sem hann stendur við tjaldbúðirnar. Á sumrin iðar allt af lífi við skurðinn þar sem fólk safnast saman á góðviðrisdögum og nýtur lífsins langt fram eftir nóttu.

AFP

Khater, líkt og flestir hælisleitenda sem The Local ræddi við frá Afganistan, hefur fengið úthlutað viðtalstíma hjá Útlendingastofnun þar sem hann getur sótt um hæli. En nokkrar vikur eru þangað til röðin kemur að honum sem þýðir að hann verður að bíða á götunni þangað til og jafnvel lengur.

Jólin verða eins og hver annar dagur hjá tjaldbúunum - von um að það rigni ekki og þeim verði ekki of kalt. Hjálparstofnanir færa þeim heita máltíð á jólum líkt og aðra daga.

Flóttafólk í París.
Flóttafólk í París. AFP

Tjöld flóttafólks blasa víða við í höfuðborg Frakklands því þau er að finna við lestarstöðvar sem og í Porte de la Chapelle þar sem móttökumiðstöð hælisleitenda er staðsett. Fólki sem býr á götunni hefur fjölgað á nýju í París og þegar tjaldbúðirnar stækka grípur lögregla til aðgerða. Flytur fólkið með langferðabílum út úr borginni og reyna að koma því fyrir í skammtímavist. En margir snúa fljótt til baka og tjaldbúðir rísa á ný.

Þegar fjölmargir flóttamenn komu til Frakklands haustið 2016 gripu borgaryfirvöld í París til þess ráðs að setja á laggirnar miðstöð fyrir flóttafólk íPortedelaChapelle þar sem 400 geta gist á beddum. Þar fá einhleypir karlar tímabundið að gista eða í tíu daga. Fjölskyldur, börn sem eru ein á flótta og konur eru aftur á móti hýst á öðrum stað í borginni.

AFP

Í fyrra sóttu 85.700 manns um hæli í Frakklandi. Í júní sagði nýkjörinn forseti landsins, Emmanuel Macron að Frakkar yrðu að bjóða flóttafólk velkomið. Það væri skylda þeirra. En síðan þá hefur lítið borið á því að flóttafólk sé sérstaklega boðið velkomið til Frakklands.

Á næstu dögum stendur til að vísa hópi hælisleitenda, sem hefur verið synjað um hæli í Frakklandi, úr landi og herða lög sem gilda um innflytjendur. 

En Afganir sem blaðamaður The Local ræddi við í gær segja að þetta sé þeim ekki efst í huga. Líf þeirra snúist um að halda lífi í vosbúðinni við Saint-Martin skurðinn í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert