Kaupa enn jólagjöf handa Madeleine

Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf frá hóteli …
Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf frá hóteli í Portúgal.

„Síðustu jólin sem ég eyddi með dóttur minni, Madeleine, eru afar fjörleg minning fyrir mig. Hún var þriggja ára gömul og í leikskólanum hafði hún lært nokkur jólalög,“ skrifar Kate McCann í grein sem birt er í Telegraph af tilefni jólanna. Ellefu ár eru liðin frá hvarfi Madeleine og móðir hennar kaupir enn jólagjöf handa henni. 

Telegraph beinir sjónum sínum að horfnu fólki fyrir þessi jól en ein þeirra er Madeleine McCann sem hvarf sporlaust í Portúgal í byrjun maí 2007. Nokkrum dögum áður en hún varð fjögurra ára gömul.

Kate McCann lýsir fyrir lesendum Telegraph þessum síðustu jólum sem fjölskyldan átti saman. Jólagjöfin fyrir Madeleine og systkini hennar það árið var leikfangaeldhús.

„Ég man eftir andliti hennar þegar hún gekk inn,“ skrifar Kate McCann. Spenningurinn skein úr augum Madeleine þegar hún opnaði gjöfina og hófst þegar handa við að elda mat fyrir fjölskylduna. „Þetta er dásamlegt augnablik. Ég hef keypt jólagjöf handa Madeleine á hverju ári síðan en þetta leikfangaeldhús er síðasta gjöfin sem ég sá hana opna,“ skrifar Kate McCann. Hún og faðir Madeleine, Gerry McCann, hafa aldrei misst trúna á að hitta dóttur sína að nýju. 

Madeleine McCann hvarf úr íbúð sem fjölskyldan hafði leigt á Praia da Luz í Algarve-héraði í Portúgal 3. maí 2007. „Þessi jól verða þau elleftu sem ég og eiginmaður minn eyðum án dóttur okkar. Fyrir fjölskyldur eins og okkar, sem þurfa að búa við kvöl - vegna barns sem er horfið eða hvaða ættingja sem er - þá geta jólin verið skelfilega sársaukafullur tími,“ skrifar hún í Telegraph.

Því jólin eru sá tími sem fjölskyldur sameinast og hamingjan blasir við flestum. Þessi mikla gleði og hamingja gerir líf þeirra sem sakna enn erfiðara. En með tímanum lærir þú að gera það besta og reiðir þig á stuðninginn sem er þarna. Hvaðan sem hann kemur, segir hún. 

Kate og Gerry McCann.
Kate og Gerry McCann. AFP

„Fyrstu jólin eftir hvarf Madeleine þá gat ég ekki gert neitt. Ég var svo dofin að ég gat hvorki keypt gjafir né kort eða jafnvel sett upp jólatréð,“ segir í greininni. Að lokum fór það þannig að þau dvöldu fjarri heimili sínu og reyndu að gera sitt besta til þess að halda jól. 

„Þrátt fyrir allt þá eigum við tvö önnur börn, sem eru núna 12 ára gömul, og eiga skilað að halda jöl. Það þýðir samt ekki að þetta sé auðvelt. Allt ber keim af sársauka,“ skrifar Kate McCann.

Hér er hægt að lesa greinina í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert