Skipulagði árás í San Francisco

Pier 39.
Pier 39. AFP

Bandaríska alríkislögreglan handtók í gær fyrrverandi hermann sem talið er að hafi verið að undirbúa hryðjuverk í San Francisco. 

Everitt Aaron Jameson, 26 ára, var að undirbúa árás á Pier 39 verslunarmiðstöðina sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna í borginni, að sögn fulltrúa í FBI, Christopher McKinney, sem stjórnar rannsókn málsins.

Jameson á að hafa lýst því fyrir fulltrúum FBI sem störfuðu með leynd hvernig hann ætlaði sér að koma fyrir sprengiefni á þessum fjölfarna stað á tímabilinu 18. til 25. desember. Að eigin sögn vegna þess að jólin væru fullkominn tími til þess að fremja hryðjuverk.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI var Jameson ekki með neina áætlun um hvernig hann ætlaði að flýja enda væri hann reiðubúinn til þess að deyja fyrir málstaðinn en hann var undir miklum áhrifum frá vígasamtökunum Ríki íslams.

Lögreglan leitaði á heimili hans í Modesto í Kaliforníu á miðvikudag þar sem erfðaskrá hans og fleri munir fundust þar á meðal og skotvopn og skotfæri.

Jameson var við þjálfun hjá sjóhernum árið 2009 og lauk þeirri þjálfun en var síðar vísað úr hernum þar sem hann hafði ekki upplýst um að hann væri með astma. 

Ástæðan fyrir staðarvalinu, Pier 39, var sú að hann vissi að þangað færu margir í kringum jólin en um 10 milljónir gesta koma þangað ár hvert.

Jameson sagði við FBI að Bandaríkin þyrftu á fleiri árásum að halda eins og í New York og San Bernardino og hvernig hann sjálfur myndi fremja ódæðið innblásinn af áróðri frá Ríki íslams. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert