15 teknir af lífi í Egyptalandi

Egypskir hermenn. Töluvert hefur verið um árásir uppsreisnarmanna á her, …
Egypskir hermenn. Töluvert hefur verið um árásir uppsreisnarmanna á her, lögreglu og dómara á Sínaískaga. AFP

Yfirvöld í Egyptalandi tóku í dag af lífi 15 menn sem voru fundnir sekir um að hafa staðið fyrir árásum að öryggissveitir á Sínaískaga árið 2013. Aftökurnar fóru fram í tveimur fangelsum í norðurhluta landsins.

Aftökurnar fóru fram með hengingu, en mennirnir voru dæmdir sekir um að hafa drepið hermenn, hafa staðið fyrir aftökum og fyrir að eyðileggja herbíla.

Segir BBC þetta fyrstu fjöldaaftökuna í Egyptalandi frá því sex íslamskir uppreisnarmenn voru teknir af lífi í landinu árið 2015.

Töluvert hefur verið um uppreisnarsveitir á Sínaískaga undanfarin ár og hafa hópar vígamanna með tengsl við Ríki íslams staðið fyrir árásum þar á her, lögreglu og dómara.

Í síðustu viku sprengdu sveitir vígamanna upp þyrlu sem var staðsett á flugvelli á norðurhluta Sínaískaga og kostaði árásin einn hermann lífið og tveir til viðbótar særðust.

Þá stóðu vígamenn, sem taldir eru tengjast Ríki íslams, fyrir sprengjuárás á mosku á norðurhluta Sínaískaga  í nóvember, sem kostaði 250 manns lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert