Norður-Kórea undirbýr gervihnattarskot

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er nú sagður undirbúa að skjóta …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er nú sagður undirbúa að skjóta gervihnetti á loft. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu vinna nú að því að koma á loft gervihnetti, að sögn suðurkóresks dagblaðs. Norður-Kórea sætir nú margvíslegum refsiaðgerðum af hálfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkuáætlunar og er m.a. bannað að senda á loft eldflaugar og gervihnetti.

„Við höfum nýlega frétt eftir ýmsum leiðum að Norður-Kórea hefur lokið gerð nýs gervihnattar sem hlotið hefur nafni Kwangmyongsong-5,“ hefur dagblaðið Joongang Ilbo eftir heimildamanni innan suðurkóresku stjórnarinnar.

„Áætlun þeirra gengur út á að setja gervihnött útbúinn myndavélum og fjarskiptabúnaði á sporbaug um jörðu,“ hefur blaðið eftir heimildamanninum.

Norður-Kórea sendi á loft gervihnöttinn Kwangmyongsong-4 í febrúar 2016 og segir AFP-fréttastofan marga innan alþjóðasamfélagið hafa litið svo á að skot gervihnattarins hafi verið lítið annað en dulbúin flugskeytatilraun.

Talsmaður suðurkóreska hersins segir „ekkert óvenjulegt að gerast í  augnablikinu“, en bætti við að yfirvöld í Seúl fylgdust náið með þróun mála, m.a. flugskeytatilraunum dulbúnum sem gervihnattaskotum.

Stutt er síðan norðurkóreska ríkisdagblaðið Rodong Sinmun ítrekaði rétt Norður-Kóreu til að skjóta á loft gervihnöttum og þróa eigin geimáætlun.

Breytist ekki bara af því að Bandaríkin vilja það

Fyrr í þessum mánuði hafði rússneska dagblaðið Rossiyskaia Gazeta eftir rússneskum hernaðarsérfræðingi, Vladimír Khrustalev, að Norður-Kórea gerði ráð fyrir að skjóta á loft tveimur gervihnöttum, könnunarfari og samskiptafari, á næstunni. Lét Khrustalev þessi orð falla eftir vikulanga heimsókn sína til Norður-Kóreu í nóvember þar sem hann fundaði með geimfaraþróunarstofnun landsins (NADA).

Talið er að Norður-Kóreu hafi tekist að koma gervihnetti á sporbaug umhverfis jörðu í desember 2012 eftir áralangar tilraunir. Ítrekaði Kim In-Ryong, sendifulltrúi Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum, á allsherjarþinginu í október rétt Norður-Kóreu til að þróa „hagnýta gervihnetti“ sem geti stuðlað að efnahagsþróun og aukið lífsgæði almennings. Réttur Norður-Kóreu til að framleiða og skjóta á loft gervihnöttum „breytist ekki bara af því að Bandaríkin vilja það“.

Mikil spenna hefur ríkt á Kóreuskaganum undanfarinn misseri og hefur hún farið stigvaxandi eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók við embætti, en þeir Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafa skotið föstum skotum hvor á annan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert