Skerða framlög til Sþ um 258 milljónir dollara

Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segist vera ánægð ...
Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segist vera ánægð með niðurskurðinn og hlakka til uppbyggilegs samstarfs. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla að skerða fjárframlög sín til Sameinuðu þjóðanna um 285 milljónir dollara að því er greint er frá á vef Guardian, en Bandaríkin leggja til um 22% af árlegum fjárframlögum Sameinuðu þjóðanna.

Tímasetning niðurskurðarins er sögð senda skilaboð um óánægju Bandaríkjanna með þá ákvörðun meirihluta ríkja Sameinuðu þjóðanna að hafna viðurkenningu Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Tilkynnt var um niðurskurðinn um jólahátíðina og er þetta talið merki um staðfestu stjórnar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að beygja ákvarðanir alþjóðasamfélagsins að eigin vilja. Sagði Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, eftir atkvæðagreiðsluna að Bandaríkin ætluðu ekki lengur að láta níðast á örlæti sínu. „Óskilvirkni og ofeyðsla“ væru þekkt vandamál hjá Sameinuðu þjóðunum

Í yfirlýsingu sem Haley sendi frá sér vegna niðurskurðarins sagði að enn frekari og óskilgreindur niðurskurður yrði á fjárframlögum til stjórnar og stuðningsstofnanna Sameinuðu þjóðanna. Ekki var tekið fram hversu mikill heildarniðurskurðurinn yrði, né heldur hvaða áhrif hann hefði á fjárframlög Bandaríkjanna.

Samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna leggja Bandaríkin fram 22% af árlegu fjármagni stofnunarinnar, eða um 1,2 milljarða dollara, og 28,5% af kostnaði við friðargæslu samtakanna, sem nam 6,8 milljörðum dollara.

Tímasetningin sendir skýr skilaboð

Í yfirlýsingu Haley kveðst hún vera ánægð með niðurstöður fjárhagsáætlunarinnar og að Bandaríkin „hlakki til að halda áfram að leita leiða til að auka skilvirkni Sameinuðu þjóðanna á sama tíma og við verjum hagsmuni okkar“.

Tímasetning yfirlýsingarinnar þykir senda skýr skilaboð, en á fimmtudag samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna með 128 atkvæðum gegn níu að fordæma þá ákvörðun Bandaríkjanna að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Sagði Haley að atkvæðagreiðslunni lokinni að Bandaríkin myndu ekki gleyma þessari kosningu þegar þau þyrftu að leggja fram fjármagn til samtakanna.

Áður en kosningin fór fram á Trump að hafa sagt á ríkisstjórnarfundi: „Látum þá kjósa gegn okkur. Við munum spara helling. Okkur er sama. Þetta er ekki eins og það var þegar þeir gátu kosið gegn okkur og við greiddum þeim hundruð milljóna dollara. Við ætlum ekki að láta nota okkur lengur.“

mbl.is