Stríð gegn börnum

Ungt barn, smitað af kóleru, grætur á sjúkrahúsi í hafnarborginni …
Ungt barn, smitað af kóleru, grætur á sjúkrahúsi í hafnarborginni Hodeida í Jemen. AFP

Nadhira er átján mánaða. Hún þjáist af lífshættulegri vannæringu sem hefur meðal annars leitt til öndunarfærasjúkdóma. Hún veiktist fyrst rúmlega eins árs gömul. Móðir hennar gat nurlað saman peningum til að koma henni á sjúkrahús. En hún hafði ekki efni á lyfjum fyrir litlu stúlkuna sína. Og þó Nadhira hafi nú aftur komist undir læknishendur er hún í lífshættu. Vannæring í svo langan tíma getur auðveldlega dregið börn til dauða eða heft svo þroska þeirra að það mun hafa áhrif um alla framtíð.

Hungursneyð af mannavöldum vofir yfir rúmlega átta milljónum samlanda hennar í Jemen. Um hálf milljón barna er líkt og Nadhira lífshættulega vannærð. Þar geisar nú mesti kólerufaraldur sem um getur í heiminum í hálfa öld í skugga hrikalegs stríðs sem varað hefur í tæplega þrjú ár. Daglega deyja meira en 130 börn í landinu úr hungri og sjúkdómum. Það er meira en tíu börn á hverri klukkustund.

Alvarlega vannært barn á sjúkrahúsi í höfuðborginni Sanaa í Jemen.
Alvarlega vannært barn á sjúkrahúsi í höfuðborginni Sanaa í Jemen. AFP

„Staða barna í Jemen er algjörlega skelfileg. Eftir 1.000 daga af átökum er Jemen talið einn af verstu stöðum á jörðinni til að vera barn,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. „Meira en 11 milljónir barna í Jemen þurfa á lífsnauðsynlegri hjálp að halda. Það er nánast hvert einasta barn í landinu.“

80% landsmanna í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð

Ástandið í Jemen er einstaklega flókið. Jafnvel áður en að stríðið braust út í mars árið 2015 var fátækt útbreidd, matvælaöryggi lítið og aðgangur að heilbrigðisþjónustu takmarkaður. En hörmungarnar hafa aukist hratt og nú er svo komið að yfir 20 milljónir Jemena, meira en 80% landsmanna, eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð. 

Í stríðinu hefur stoðunum ver kippt af afli undan mennta- og heilbrigðiskerfinu. Í raun mætti segja að ekkert virki sem skyldi. Skólum hefur verið lokað í hundraðavís og milljónir barna frá litla eða enga menntun. Á skólana hefur verið ráðist og kennarar myrtir. Hið opinbera hefur ekki getað greitt laun svo kennarar hafa skiljanlega hætt að mæta í vinnuna.

Molnað hefur undan heilbrigðiskerfinu sem var mjög viðkvæmt fyrir. Þegar stríðinu lýkur, sem alls óvíst er hvenær verður, mun það taka áratugi að byggja um samfélagið að nýju. Vannæring barnanna verður ekki læknuð á augabragði ef það tekst yfir höfuð að bjarga lífi þeirra. Slíkt hefur áhrif til langframa á bæði líkamlegan og andlegan þroska. „Innviðir landsins eru í rúst,“ segir Steinunn. „Stríðið í Jemen er því miður stríð gegn börnum.“

Þrjár milljónir á vergangi

Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur starfar í Jemen.
Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur starfar í Jemen.

Talið er að vel yfir 5.000 óbreyttir borgarar, sem engan þátt eiga í stríðinu, hafi fallið í átökum þeirra sem berjast um völdin í landinu. Tugir þúsunda hafa særst. Rúmlega þrjár milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín og eru á vergangi innan landsins.

Í þessu stríðsástandi starfar Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur. Elín er búsett í Lundi í Svíþjóð og er starfsmaður háskólasjúkrahússins þar en síðustu ár hefur hún einnig starfað með Rauða krossinum og farið til verkefna í Suður-Súdan, Gaza, Afganistan og Pakistan. Hún er nú í annað sinn að störfum í Jemen.

„Hér hefur fjöldi þeirra sem særst hafa í stríðinu aukist undanfarið,“ segir Elín sem er starfar með sjúkrateymi við sjúkrahús í hafnarborginni Hodeida við Rauðahafið. „Við gerum skurðaðgerðir á þeim sem hafa verið skotnir eða hlotið skaða í loftárásum, almennum borgurum, börnum þar á meðal og hermönnum. Einnig gerum við aðrar aðgerðir ef þörf er á, meðal annars keisaraskurði.“

Hún segir að á sjúkrahúsinu sé skortur á ýmsum nauðsynjum, s.s. lyfjum, líkt og á öðrum spítölum landsins. Þá sé rafmagn mjög ótryggt. Alþjóða rauði krossinn útvegi það sem hann geti til að hægt sé að sinna sjúklingum. Skurðteymið sem Elín starfar með hefur t.d. lyf sem við þarf til skurðaðgerða, lyf sem sjúklingar þurfa eftir aðgerðir og margt annað. Einnig útvegar teymið hluti sem þarf á skurðstofur og bráðamóttökur svo sem rúm, dýnur, lök, tæki til að sótthreinsa áhöld. Alþjóða Rauði krossinn útvegar þessa hluti á fleiri sjúkrahús í Jemen og einnig á margar heilsugæslustöðvar.

„Rauði krossinn sinnir ekki aðeins sjúklingum heldur einnig fólki sem hefur misst heimili sín vegna átakanna, þeim sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og þeim sem eru í fangelsum.“

125 féllu á sex dögum

Sem dæmi um ástandið í landinu segir Elín að í byrjun desember hafi 125 manns fallið í loftárásum í höfuðborginni Sanaa á aðeins sex dögum og 238 særst. „Íbúar voru lokaðir inni á heimilum sínum, jafnvel særðir eða með særða ástvini, og óléttar konur komust ekki á sjúkrahús. Alþjóða Rauði krossinn brást strax við eins og hægt var á þeim tíma og útvegaði þremur sjúkrahúsum í borginni hluti til að sinna særðum og útdeildi hreinu vatni í hverfum borgarinnar.“

Áður en stríðið braust út stóluðu Jemenar á innflutning á flestum nauðsynjavörum, s.s. eldsneyti, mat og lyfjum. Nú þegar óðaverðbólga og átök geisa er skortur á þessu öllu.

Sameinuðu þjóðirnar segja að hungursneyð vofi yfir milljónum Jemena. Fjöldi …
Sameinuðu þjóðirnar segja að hungursneyð vofi yfir milljónum Jemena. Fjöldi vannærðra barna eykst. AFP

„Það hefur verið erfitt fyrir hjálparstofnanir að koma hjálpargögnum til barna sem þurfa á að halda,“ segir Steinunn hjá UNICEF um ástandið. „Hafnir og flugvellir hafa verið lokaðir og linnulaus átök valdið því að erfitt er að flytja hjálpargögn á vettvang.“

Vegna hafnarbannsins er eldsneyti af mjög svo skornum skammti. Það hefur ekki aðeins áhrif á alla innviði, svo sem samgöngur og almennan rekstur sjúkrahúsa, heldur líka á aðgang að drykkjarvatni. Allt þetta samanlagt hefur orðið til þess að smitsjúkdómar hafa breiðst hratt út.

Milljón smitast af kóleru

Í október í fyrra var fyrirséð að kólerufaraldur væri í uppsiglingu. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir þeim sjúkdómi. Ári síðar voru tæplega 900 þúsund tilfelli kóleru staðfest og 2.000 höfðu dáið. Nú er ljóst að milljón tilfelli hafa greinst á þessu ári. „Þegar bensínskortur er, er ekki hægt að dæla hreinu vatni til íbúanna og skolpkerfið stoppar,“ segir Elín. „Þá aukast gífurlega líkurnar á að upp komi faraldrar eins og raunin er hér.“

Viðnám fólks við ástandinu sem nú hefur varað í tæp þrjú ár veikist sífellt. Því eykst þörfin fyrir neyðaraðstoð stöðugt. Sá hópur fer stækkandi sem er án atvinnu og tekna og veit ekki hvenær hann fær næst að borða. Þá má ekki gleyma þeirri lífshættu sem fólk er í vegna átakanna og þeirri vanlíðan sem slíkri ógn fylgir.

Á sjúkrahúsunum í Jemen er aðbúnaður oft skelfilegur. Hér huga …
Á sjúkrahúsunum í Jemen er aðbúnaður oft skelfilegur. Hér huga heilbrigðisstarfsmenn að vannærðu barni á spítala í hafnarborginni Hodeida. AFP

Það er því ekki hlaupið að því að sinna sjúklingum og öðrum þeim sem á hjálp þurfa að halda. „Við erum að vinna í erfiðum aðstæðum, í landi þar sem hefur geisað stríð lengi,“ lýsir Elín. „Oft á tíðum er erfitt að koma inn í landið lífsnauðsynlegum hlutum eins og lyfjum fyrir langveika sjúklinga, nauðsynlega hluti til að sinna sjúklingum á sjúkrahúsum, bensíni og olíu svo fólk geti komist á milli staða eða til að hafa aðgang að vatni og rafmagni. Við sjáum hvaða áhrif stríðið hefur á fólkið sem býr í þessu landi.“

Hún segir að fyrir sjúkrateymið sem hún starfar með sé það áskorun að hafa ekki einfalda hluti til að sinna sjúklingunum. „Einfalda hluti sem okkur þykir sjálfsagt að hafa við höndina heima.“ Bendir hún í þessu sambandi á nauðsyn rafmagns svo hægt sé að framkvæma skurðaðgerðir. Sé ekki til eldsneyti á rafstöðvarnar sé rafmagnslaust á sjúkrahúsunum. En Í Jemen er ekki hægt að láta slíkt stoppa sig. „Ef við höfum ekki rafmagn þá vinnum við með höfuðljós og blásum súrefni í sjúklingana handvirkt ef þörf er á.“

Átök í gegnum aldirnar

Stríðið í Jemen tók óvænta stefnu í byrjun desember er fyrrverandi forseti landsins, Ali Abdullah Saleh, var myrtur af uppreisnarmönnum húta, hóps sem hefur haldið til í norðurhluta landsins en berst nú um yfirráð í suðurhluta þess. Saleh hafði gengið til bandalags við hútana gegn stjórnarhernum og hernaðarbandalagi leiddu af Sádi-Arabíu en brestir komu í það í haust og upp úr sauð í vetur með fyrrgreindum afleiðingum.

Upptök stríðsins í Jemen hafa verið rakin til arabíska vorsins árið 2011 er forseta landsins var steypt af stóli. En í raun liggur rótin mun dýpra og lengra aftur.

mbl/Kristinn Garðarsson

Allt frá 9. öld hafa sjía-múslimar verið fjölmennastir í norðurhluta Jemen ólíkt því sem er í suðurhlutanum. Í suðri börðust lengi ólík þjóðarbrot og valdamiklar fjölskyldur um völdin. Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð norðurhluti landsins sjálfstætt ríki og loks lýðveldi árið 1962. Suðurhluti landsins, sem hafði tilheyrt breska heimsveldinu, varð svo sjálfstætt ríki árið 1967 og þá fyrst var farið að tala um Norður- og Suður-Jemen.

Átök héldu áfram í Suður-Jemen og árið 1969 tók Þjóðfrelsishreyfingin (The National Liberation Front) völdin og stofnaði kommúnistaríki með stuðningi Sovétríkjanna. Óvild milli Norður- og Suður-Jemen var enn mikil og tvö stríð brutust út næstu árin; 1972 og 1979. „Bæði þessi stríð milli norðurs og suðurs snerust um tilraunir til að sameina Jemen,“ segir sagnfræðingurinn Abd al-Bari Taher í grein um sögu Jemen á vef fréttastofunnar Al-Jazeera.

Sameiningu lýst yfir 1990

Leiðin að sameiningu landanna, sem varð að veruleika árið 1990, var þyrnum stráð. Samið var um vopnahlé í Kaíró árið 1972 og ákveðið að samin yrðu drög að stjórnarskrá fyrir sameinað Jemen. Á ýmsu átti eftir að ganga næstu árin. Á svipuðum tíma og Sovétríkin hófu að liðast í sundur tókust tvær fylkingar innan Sósíalistaflokksins á um völdin í Suður-Jemen og átök brutust út.

Barn í höfuðborginni Sanaa fær bóluefni gegn lömunarveiki.
Barn í höfuðborginni Sanaa fær bóluefni gegn lömunarveiki. AFP

Í kjölfar þess umróts var loks sest að samningaborðinu um sameiningu Jemen að nýju árið 1989. Þær viðræður leiddu Ali Salim el-Beidh, formaður Lýðræðisflokks fólksins í Suður-Jemen og Ali Abdullah Saleh, forseti Norður-Jemen. Sameiningu ríkjanna tveggja var svo lýst yfir árið 1990. „Við viljum öll koma í veg fyrir þriðja stríðið meðal Jemena,“ sagði Ali Salim el-Beidh af því tilefni.

En áframhaldandi sundrung einkenni sameinað Jemen og frá upphafi var Saleh, sem varð forseti alls landsins, sakaður um valdníðslu og yfirgang. Illdeilur milli þjóðarbrota og annarra ólíkra hópa, sem höfðu þrifist í aldir, voru enn áberandi og Saleh tókst ekki að fá íbúa hins nýstofnaða ríkis til að snúa bökum saman.

Í fyrstu kosningunum sem haldnar voru eftir sameiningu var líka ljóst að þjóðin var algjörlega klofin; hinar gömlu valdalínur milli norðurs og suðurs voru enn greinilegar. Árið 1993, hálfu ári eftir kosningarnar, braust út borgarastyrjöld. Reynt var að semja um frið með milligöngu Jórdana en allt kom fyrir ekki. Svo fór að Ali Salim el-Beidh fór til Aden, sem hafði verið höfuðborg Suður-Jemen, og lýsti yfir stofnun nýs ríkis: Lýðveldisins Jemen. Saleh lýsti þá yfir neyðarástandi og braut þessa uppreisn í suðri á bak aftur.

Vannært barn á sjúkrahúsi í borginni Hodeida. Vannæring getur haft …
Vannært barn á sjúkrahúsi í borginni Hodeida. Vannæring getur haft áhrif á líkamlega og andlega heilsu til langframa. Í verstu tilvikum leiðir hún til dauða. AFP

Eftir þetta jukust völd Saleh og stuðningsmanna hans enn frekar. Þeim hélt hann allt þar til byltingin sem kennd er við arabíska vorið hófst árið 2011. Þá flykktust Jemenar út á götur og kröfðust afsagnar hans. Þeir höfðu búið við atvinnuleysi, efnahagskreppu og spillingu í fleiri ár og höfðu fengið nóg.

Saleh steig loks af valdastóli í nóvember það ár og við völdum tók varaforsetinn Abdrabbuh Mansour Hadi. En þó Hadi hafi lofað umbótum reyndist það honum ofviða að koma þeim á. Ólgan í samfélaginu var orðin ofsafengin.

Hatrammar deilur við al-Huthi

Á meðan Saleh var við stjórnvölinn hafði hann átt í deilum við hóp sjía-múslima sem kallaði sig Fylgisveina Allah í norðurhluta landsins. Þessi hópur, sem predikaði fyrst í stað frið, hafði mikil ítök undir stjórn leiðtoga síns og stofnanda  Hussein al-Houthi. Árið 2004 greip hópurinn fyrst til vopna gegn ríkjandi stjórnvöldum. Saleh forseti sendi stjórnarherinn til Saada-héraðs, þar sem völd al-Huthis voru mest, og í þeim átökum féll hann. Bardagar brutust ítrekað út næstu árin milli stuðningsmanna Huthis og stjórnarhersins en um vopnahlé var svo samið árið 2010.

Þá var arabíska vorið handan við hornið og stuðningsmenn Hussein al-Huthis, sem þá voru farnir að kenna sig við hann, tóku þátt í því að koma Saleh frá völdum.

Það sem helst hefur farið fyrir brjóstið á hútum í gegnum tíðina er sú stefna stjórnvalda að skipta Jemen í sex ríki. Í slíkum áætlunum er gert ráð fyrir að Saada-hérað, þar sem þeir hafa farið með völd, sameinist höfuðborgarsvæðinu Sanaa. Þeir hafa krafist aukinna valda í alríkisstjórn og að sérstakt ríki verði stofnað í norðri. Þeir eru þó ekki sagðir hafa krafist sjálfstæðis í deilum sínum.

En það sem áður hafði þótt ómögulegt gerðist þó árið 2014 er uppreisnarmenn húta, liðhlaupar úr stjórnarhernum ásamt Saleh og hans stuðningsmönnum tóku höndum saman gegn Hadi.

Drengur á götum Jemen.
Drengur á götum Jemen. AFP

Valdarán í höfuðborginni

Uppreisnarmennirnir gerðu áhlaup á höfuðborgina Sanaa og tóku þar völdin í september 2014. Í byrjun árs 2015 reyndu þeir að ná öllu landinu undir sína stjórn sem varð til þess að Hadi flúði til Sádi-Arabíu.

Þrálátur orðrómur var um að hútar fengju vopn sín frá Írönum og það fór sérstaklega fyrir brjóstið á Sádi-Aröbum sem ákváðu að mynda bandalag með fleiri ríkjum og styðja stjórnarher Jemen gegn uppreisnarmönnum húta. Frá því að Sádar hófu afskipti af borgarastríðinu í landinu í mars árið 2015 hafa verið gerðir tugir mannskæðra loftárása en í hernaði sínum hafa Sádar m.a. notið stuðnings Frakka, Breta og Bandaríkjamanna þó að þeir hafi nokkuð haldið sig til hlés eftir að yfir 140 manns féllu í loftárás sem gerð var á jarðarför fyrir rúmu ári.

Og þessi tæpu þrjú ár sem stríðið hefur geisað hafa valdalínur færst til og frá og enginn augljós sigurvegari eða friðarsamkomulag er í sjónmáli.

En í byrjun desember dró til tíðinda er bandalag Saleh og húta liðaðist í sundur og Saleh var drepinn. Síðan þá hefur stjórnarherinn sótt fram af miklum móð og náð hluta Sanaa aftur á sitt vald. Einnig var hafnarbanni, sem Sádar stóðu fyrir,  tímabundið aflétt á einhverjum stöðum til að koma neyðarbirgðum til landsins.

Óvissa í kjölfar morðsins

Enn á eftir að koma í ljós hver áhrif þessara sviptinga innan stríðandi fylkinga verða. Það er ákveðin hætta á því að ástandið eigi eftir að versna enn frekar.

Jemen er sífellt að breytast, segir stjórnmálafræðingurinn Adam Baron í samtali við Al-Jazeera. „Saleh var ekki bara einhver leikmaður í þessu stríði. Hann var, hvort sem fólki líkar það betur eða verr, sá sem byggði upp Jemen nútímans og lét ímynd landsins hverfast um sig. Svo nú þegar hann er farinn þá held ég að allt geti gerst.“

Móðir heldur á vannærðu barni sínu í fanginu á sjúkrahúsi …
Móðir heldur á vannærðu barni sínu í fanginu á sjúkrahúsi í Sanaa. AFP

Almennir borgarar óttast áfram um sinn hag. Ríkt tilefni er til. Árásir eru enn tíðar.

„Við eigum nú von á því að ástandið haldi áfram að versna,“ segir Aswan Abdu Khalid, kennari við háskólann í Aden, í samtali við Reuters. „Þetta er aðeins upphafið af áframhaldandi átökum og frekari blóðsúthellingum. Stríðinu mun ekki ljúka í bráð.“

Á meðan þjást óbreyttir borgarar. Bretar eru meðal þeirra þjóða sem nú virðast hafa vaknað upp við vondan draum; hörmungarnar sem Jemenar eru nú að ganga í gegnum eiga sér ekki hliðstæðu í heiminum í dag að mati Sameinuðu þjóðanna. Bretar hafa því heitið auknum stuðningi og hafa síðustu vikur sent mikið magn hjálpargagna til landsins frá höfnum í Djíbjútí í Afríku. 

„Þetta er hægur dauðdagi,“ sagði Yakoub al-Jayefi, hermaður í Jemen, í samtali við New York Times nýverið. Hann hefur ekki fengið greidd laun mánuðum saman og ung dóttir hans liggur á sjúkrahúsi vegna alvarlegrar vannæringar.

Skinn og bein

Slíkum fréttum á eftir að fjölga. Staðfest hefur verið að í ár hafa greinst milljón tilfelli kóleru. Fleiri smitsjúkdómar herja á íbúana, aðallega börn. Hin manngerða hungursneyð sem vofir yfir og hefur þegar læst klónum í íbúa á vissum svæðum hefur og mun áfram bitna mest og verst á börnunum.

Um hálf milljón barna í Jemen er lífshættulega vannærð.
Um hálf milljón barna í Jemen er lífshættulega vannærð. AFP

Abdulaziz al-Husseinya er eitt þessara barna. Er blaðamaður Guardian hitti hann á sjúkrahúsi í borginni Hodeida í byrjun nóvember var hann lítið annað en skinn og bein. Níu ára og 9,5 kíló að þyngd. Nýverið afléttu Sádar löndunarbanni í höfn borgarinnar. Þá kom fyrsta skipið með hjálpargögn og matvæli þar að bryggju.

Engum sögum fer af því hvort skipið kom í tæka tíð til að bjarga lífi Abdulaziz litla.

Í þessari sömu borg er Elín að störfum við gríðarlega erfiðar aðstæður. Hún segir að þrátt fyrir allt líði sér vel. „Ég er að vinna með góðu fólki að sameiginlegu markmiði – að aðstoða þá sem hafa um sárt að binda í aðstæðum sem þeir ráða ekki við.“

Auk þess að vera byggð á viðtölum mbl.is við Steinunni Jakobsdóttur og Elínu Jakobínu Odssdóttir er greinin byggð á fréttaskýringum og fréttum New York Times, Reuters, Guardian, Al-Jazeera, AFP og fleiri. Einnig var stuðst við skýrslur UNICEF og Save The Children. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert