Bar fíl á bakinu

Palanichamy Sarathkumar gerði sér lítið fyrir og vippaði fílsunganum á …
Palanichamy Sarathkumar gerði sér lítið fyrir og vippaði fílsunganum á bak sér.

Skógarvörður í suðurhluta Indlands hefur komist í heimsfréttirnar fyrir að bjarga fílsunga sem féll ofan í skurð og varð viðskila við móður sína. 

Palanichamy Sarathkumar er 28 ára. Þakkarorðum hefur rignt yfir hann að undanförnu eftir að frétt af björgunarafreki hans var sögð um helgina. Á mynd sem birt var með fréttinni sást hann bera fílsungann, sem vegur um 100 kíló, á bakinu. Mörgum lék forvitni á að vita hvernig hann hefði getað borið dýrið sem er þyngra en hann sjálfur.

„Hann var mjög þungur,“ viðurkennir Sarathkumar. „En ég bara lyfti honum upp án þess að hugsa út í það.“ Fílsunginn var síðar færður til móður sinnar. 

Sarathkumar er hluti af teymi sem vinnur í nágrenni þorpsins Mettupalayam.

„Eftir að mynd og myndband af mér að lyfta fílsunganum var birt í sjónvarpinu og á samfélagsmiðlum hafa margir hringt í mig til að þakka mér,“ segir hann í samtali við BBC. „Allir í þorpinu eru nú að spyrja mig hvernig ég hafi getað lyft fíl! Ég var hræddur um að missa jafnvægið. En vinir mínir komu mér til aðstoðar og héldu við hann og aðstoðuðu mig við að bera hann.“

Móðirin bað um hjálp

Björgunin átti sér stað 12. desember. Hann var á heimleið frá vinnunni í skóginum þegar hringt var í hann þar sem tilkynnt var um stóran fíl sem stæði úti á vegi við hof í grenndinni.

Honum og teymi hans tókst að reka hinn fullorðna fíl aftur út í skóginn. Síðan fóru þeir að leita eftir fleiri fílum í grenndinni.

„Þá sáum við þennan fílsunga fastan ofan í skurði,“ segir hann. „Hann var þreyttur og ringlaður. Við færðum til stóran stein svo við gætum hjálpað honum upp úr skurðinum.“

Teymið áttaði sig á því að þarna var fundin skýringin á því að fullorðna kvendýrið hafði staðið á miðjum vegi: Hún var að leita eftir hjálp til að bjarga afkvæmi sínu. Fara þurfti með fílsungann yfir veginn til móðurinnar. Þar sem þeir óttuðust að hún myndi ráðast á teymið var ákveðið að Sarathkumar færi einn með litla fílinn yfir veginn.

Hann setti hann niður við vatnsból og þar beið teymið með fílsunganum eftir að móðirin myndi birtast. Biðin varð löng. Þeir ákváðu þá að fara í burtu ef vera skyldi að nærvera þeirra hefði hrætt móðurina í burtu.

„Daginn eftir fórum við að vatnsbólinu og þá var unginn ekki lengur þar. En við gátum séð spor eftir stóran fíl í jarðveginum. Svo virðist sem þau hafi sameinast á ný og farið aftur út í skóginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert