Saka Kínverja um að útvega N-Kóreu olíu

Löndunarkranar skammt frá landamærum Norður- og Suður-Kóreu.
Löndunarkranar skammt frá landamærum Norður- og Suður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Suður-Kóreu stöðvuðu um stund í nóvember för skips frá Hong Kong vegna gruns um að það væri að flytja olíu að norðurkóresku skipi og brjóta þar með viðskiptabönn sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á. Kínverjar hafna því að hafa verið að flytja olíu í þessum tilgangi.

Skipið sem um ræðir, The Lighthouse Winmore, var að flytja um 600 tonn af olíuvörum frá Yeosu í Suður-Kóreu og flutti að sögn yfirvalda þar í landi hluta farmsins að norðurkóresku skipi hinn 19. okótber. Er skipið kom til hafnar í Yeosu að nýju 24. nóvember settu tollverðir tímabundið farbann á skipið og gerðu leit um borð. 

Skipið hafði upphaflega komið til hafnar í Yeosu 11. október og verið lestað með japanskri olíu áður en það átti að sigla til heimahafnar í Taívan.

En í stað þess að fara til Taívans flutti skipið, að því er suðurkóresk yfirvöld segja, olíuna að norðurkóreska skipinu Sam Jong 2 sem og þremur öðrum skipum frá Norður-Kóreu. Var flutningurinn gerður á alþjóðlegu hafsvæði.

Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan suðurkóresku stjórnarinnar segir að þetta sé dæmigerð leið norðurkóreskra stjórnvalda til að fara framhjá viðskiptabanninu.

Sam Jong 2 er meðal þeirra norðurkóresku skipa sem grunuð eru um að flytja varning þvert á bann Sameinuðu þjóðanna til heimalandsins. Fyrr í þessari viku var því sett hafnbann á skipið í höfnum utan Norður-Kóreu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði færslu á Twitter í gær þar sem hann sagði að Kínverjar hefðu verið gripnir glóðvolgir við að færa Norður-Kóreumönnum olíu. 

Þessu hafna kínversk stjórnvöld og segjast ekki hafa tekið þátt í slíkum gjörningi og heimili ekki að kínversk fyrirtæki brjóti gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert