Mótmælendur muni mæta „járnhnefa“

Íranskir námsmenn flýja eftir að lögreglumenn skutu táragási fyrir utan …
Íranskir námsmenn flýja eftir að lögreglumenn skutu táragási fyrir utan háskólann í Teheran í gær. AFP

Íranski byltingarvörðurinn hefur hótað mótmælendum því að þeir muni mæta „járnhnefa“ fari mótmælum gegn stjórnvöldum ekki að linna. Þau hafa nú staðið yfir í þrjá sólarhringa en þau hófust vegna óánægju íbúa með versnandi lífskjör.

Herforingi hjá byltingarverðinum segir að mótmælin hafi síðan breyst í að fólk hafi komið saman til að hrópa slagorð gegn stjórnvöldum og þá hafi verið kveikt í eignum hins opinbera. 

Þetta er mesta andstaða sem írönsk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir frá árinu 2009 þegar mótmælendur komu saman til að krefjast umbóta í landinu. 

Fram kemur á vef BBC að fregnir hafi borist af tveimur dauðsföllum í tengslum við nýjustu mótmælin.

Mótmælendur í borgunum Khoramabad, Zanjan og Ahvaz hafa krafist þess að Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, fari frá völdum eða verði tekinn af lífi.

Íranski byltingarvörðurinn er öflugur herafli sem er með náin tengsl við æðsta leiðtoga landsins. Hlutverk byltingarvarðarins er að varðveita stjórnkerfi landsins sem byggir á íslömskum lögum og reglum. 

Lögreglumenn sjást hér kljást við mótmælendur.
Lögreglumenn sjást hér kljást við mótmælendur. AFP

Innanríkisráðherra landsins hefur varað mótmælendur við því að þeir sem gerist sekir um lögbrot verði látnir gjalda fyrir það. „Þeir sem eyðileggja opinberar eignir, valda ófriði og brjóta lögin verða að bera ábyrgð á sinni hegðun og gjalda fyrir það,“ sagði Abdolreza Rahmani-Fazli.

„Við munum taka á þeim sem breiða út ofbeldi, ótta og skelfingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert